Rings

Vítamín - spurningar og svör

vitaminHvernig er hægt að þekkja vítamínskort? Það er ekki eins auðvelt og margir halda. Þreyta, einbeitingarleysi og endurteknar sýkingar geta verið merki um vítamínskort en þetta eru einnig einkenni sem geta átt við margt annað. Best er að fá úr því skorið hvort um vítamsínskort sé að ræða með því að fara í læknisrannsókn eða blóðprufu og fá um leið upplýsingar um hvaða vítamín það séu sem líkamann skortir.

Geta vítamín haft fyrirbyggjandi áhrif á sjúkdóma?  Já, því sá sem lifir á hollu og vítamínríku fæði sér líkamanum fyrir öllum nauðsynlegum bætiefnum og styrkir þannig varnir hans. Með sterku varnarkerfi getur líkaminn varist betur gegn umgangspestum og kvefi. Einnig er talið að vítamín hafi góð áhrif á kransæðasjúkdóma, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma. Vísindamenn hafa því mælt með því fyrir fólk með þessa sjúkdóma að það taki inn meira en ráðlagðan dagsskammt af C- og E-vítamíni og betakarótíni eða 150 mg í stað 75 mg. 

Hverjir þurfa að taka vítamín aukalega? Tvímælalaust þeir sem reykja og drekka mikið áfengi. En einnig þeir sem eru undir miklu álagi, stunda íþróttir af krafti, eru í megrun eða taka inn sýklalyf eða aspirín. Og síðast en ekki síst konur sem þurfa að taka inn getnaðarvarnarpilluna. Það er vegna þess að östróngenið dregur úr hæfileika líkamans til að nýta vítamín til fulls. 

Hvers vegna þurfa konur meiri fólínsýru en karlmenn? Vegna þess að þær þjást oftar af blóðleysi sem þýðir að skortur er á rauðum blóðkornum í líkamanum. Rauðu blóðkornin annast súrefnisflutning í líkamanum. Ef rauðu blóðkornin eru of fá eða starfa ekki eðlilega kemur það fram í þreytu og slappleika. Einnig geta komið fram einkenni frá meltingarvegi. Blaðsalat, t.d. spínat, inniheldur mikið magn af fólínsýru.

Geta vítamíntöflur komið í stað ávaxta og grænmetis? Nei, en þær geta vissulega bætt ástand líkamans. Ávextir og grænmeti innihalda ekki aðeins vítamín heldur steinefni og önnur efni sem eru líkamanum nauðsynleg. Ef þú færð flensu eða ert veik fyrir er hinsvegar gott að taka vítamín aukalega í töfluformi.

Hvernig veit maður hvaða matur er vítamínríkur?  Það verður ekki afráðið af útlitinu, svo mikið er víst. En í sérstökum bæklingum, næringarfræðibókum eða á umbúðum matvælanna ættu slíkar upplýsingar að koma fram. Ferskt salat og grænmeti er að öllu jöfnu mjög vítamínríkt og er sérstök ástæða til að mæla með lífrænt ræktuðu salati og grænmeti.

Hvernig er hægt að innbyrða mikið magn af ávöxtum og grænmeti á hverjum degi? Til dæmis með því að útbúa ávaxta- eða grænmetissafa. Það er fljótlegt og auðvelt, ekki síst í matvinnsluvél. Næringarfræðingar mæla með því að fólk borði um 250 g af ýmsu grænmeti, 100 g af salati og 250 g af ávöxtum á hverjum degi.

Hafa vítamín góð áhrif á skapið? Já, svo sannarlega. B-vítamín hefur áhrif á taugakerfið og þar með á skapið. Rannsóknir hafa m.a. sýnt að B-vítamín getur haft góð áhrif í baráttunni við þunglyndi. C-vítamín er einnig áhrifaríkt; það hefur þau áhrif að fólk sefur betur og dregur úr streitu – sem þýður um leið að lundin verður léttari.

Hvenær á að taka inn vítamín? Það fer eftir ýmsu. Þeir sem eiga erfitt með að vakna á morgnana og eru morgunfúlir ættu að innbyrða vítamínríka fæðu snemma dags, helst um leið og þeir fara á fætur. Sá sem er morgunhress og í góðu formi fram eftir degi ætti að borða vítamínríkan ávöxt síðdegis eða þegar kvölda tekur. 

Er hægt að taka of mikið af vítamínum? Hugsanlega. Vatnsleysanleg vítamín hlaðast ekki upp í líkamanum og valda því ekki skaða þótt þau séu tekin í of miklu magni. Sum vítamín, sem eru fituleysanleg, hafa einhverjar aukaverkanir séu þau tekin daglega í langan tíma. Of mikið A-vítamín getur t.d. valdið ógleði, svima, höfuðverk, hárlosi og pirringi í húðinni. Læknar ættu að geta gefið góð ráð í þessum efnum.

Er rétt að vítamín hafi góð áhrif á húðina? Já. Fjölbreytt og vítamínrík fæða hefur þau áhrif að húðin fær fallegan ljóma og verður sléttari. B-og H-vítamín hafa reynst góð fyrir hárið ekki síður en húðina. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að ein tegund B-vítamíns, bíótín, dregur úr ótímabærum öldrunareinkennum húðarinnar sem orsakast af sólarljósi. A-vítamín flýtir fyrir endurnýjun húðfrumna og eflir varnir húðarinnar. C-vítamín eflir teygjanleika húðarinnar.

Hafa krem sem innihalda vítamín áhrif á húðina? Já. Krem sem innihalda andoxunarefni, A- C- og E-vítamín og auk þess ýmis steinefni eins og t.d. sink, vernda húðina fyrir skaðlegum UV geislum og draga þannig úr hrukkum og öðrum ótímabærum öldrunareinkennum í húðinni. C-vítamín hefur mikið verið notað í snyrtivörur, enda hefur það bætandi áhrif á kollagenið sem viðheldur teygjanleika húðarinnar og heldur henni ungri og ferskri. Franskir vísindamenn hafa uppgötvað að andoxunarefni slétta úr húðinni þegar þau eru borin á hana í kremformi og bæta þannig útlitið. A-vítamín hefur reynst alger hrukkubani. Og ekki nóg með að það dragi úr hrukkum heldur fær húðin jafnari lit og dökkir flekkir hverfa. En ekkert er alveg gallalaust. Með því að nota krem sem innihalda vítamín þynnist húðin og verður viðkvæmari fyrir geislum sólarinnar, en þá er bara að nota góða sólarvörn.

Höfundur: Sigríður Inga