Rings

Þemabrúðkaup

themabrudkaupBrúðkaup með tiltekin þemu verða æ vinsælli, enda geta þau verið ótrúlega skemmtileg og skapað frábæra stemmningu í veislunni. Við val á þema er gott að styðjast við áhugamál ykkar eða velja eitthvað sem endurspeglar ykkur sem manneskjur.

Hvar á að byrja?

Þegar þið hafið ákveðið þema er gott að byrja á því að velja brúðarkjólinn og föt brúðgumans. Ef þið veljið t.d. rómantískt þema er tilvalið að velja rómantískan síðkjól. Þið getið tengt nánast allt sem viðvíkur brúðkaupinu ykkar við þemað, leyfið hugmyndafluginu að taka völdin. Einnig er sniðugt að halda smá fund með góðum vinum og fjölskyldu og láta alla kasta fram einhverjum hugmyndum, útkoman á eftir að koma á óvart. Það þarf ekki að auka kostnað að vera með sérstakt þema því hægt er að undirbúa þessa hluti á eigin spýtur.

Hversu langt eigum við að ganga?

Það getur verið sniðugt að setja svokallað “dress code” í veisluna varðandi fataval, sem setur sterkan blæ á þemað. Það gæti þó ollið fjaðrafoki því ekki er víst að allir veislugestirnir verði jafnánægðir með hugmyndirnar og þið. Þó sérstaklega gæti þetta reynst erfitt fyrir eldra fólkið eins og ömmur og afa. En þetta er án efa fyndið og skemmtilegt og ef þið viljið gera þetta svona gerið það! Þetta er jú ykkar brúðkaup!!!

Brúðkaup í útlöndum

Marga dreymir um að gifta sig fjarri heimkynnum sínum... t.d. á heitri strönd í karabíska hafinu eða í uppáhaldsborginni sinni. Það kann að hafa marga kosti í för með sér og losar fólk gjarnan undan þeirri streitu sem á til að fylgja hefðbundnum brúðkaupsundirbúning. Svo getur þetta verið miklu ódýrara! Ef þið ætlið að bjóða gestum í brúðkaupið gefið þeim allavega hálfs árs fyrirvara svo fólk geti skipulagt sumarfrí sitt í þetta. Þegar þið eruð komin með heildartöluna á gestunum er sniðugt að bóka tvenns konar hótel svo fólk geti valið. Það væri ekki slæmt að eyða deginum fyrir brúðkaupið á ströndinni í staðinn fyrir allan þeytinginn sem fylgir “hefðbundnum” brúðkaupum.

Óvænt brúðkaup

Sumt fólk býður til afmælisveislu eða skírnar og lætur síðan pússa sig saman í leiðinni án þess að nokkur hafi vitað hvað væri í vændum. Það er alltaf rosalega skemmtilegt að koma fólki á óvart og hvað þá í svona tilfelli. Það væri samt alveg við hæfi að láta foreldrana vita um hvað fyrir ykkur vakir og börnin líka ef þau eru til staðar.

Hérna koma nokkrar hugmyndir um hvaða þema þið getið tileinkað ykkur í ykkar brúðkaupi.

Rómantískt þema: Klassísk tónlist eins og fiðla eða strengjahljómsveit í athöfninni eða veislunni. Þið getið haft hjartalaga skreytingar og hjartalaga miða á borðum með nöfnum fólks. Það er mjög rómantískt að dreifa rósablöðum um allt, lifandi eða pappírsrósablöð. Þið getið notað tjull, blúndur og slaufur í skreytingarnar. Ef þið eruð með kvöldbrúðkaup er rómantískt að vera með kertaljós á öllum borðum. Stórir og fallegir kertastjakar geta þá komið vel út á matarborðinu og háborðinu.

Ævintýraþema: Öskubuskuþema eða þema úr einhverju öðru ævintýri sem er í uppáhaldi hjá ykkur. Þá væri hægt að finna viðeigandi brúðarkjól og fatnað á brúðgumann. Og svo má náttúrulega ekki gleyma aukahlutunum eins og kórónunni, skónum og öðrum aukahlutum sem gætu tengst þessu ævintýri. Mjög sniðugt væri að spila tónlistina úr teiknimyndinni og dansa brúðarvalsinn.

Fótboltaþema: Fótboltafanatíkusar myndu kannski vilja að brúðkaup sitt tengdist fótbolta. Þá væri upplagt að nota litina í búningunum í skreytingarnar. Það væri mjög skemmtilegt að fá einhvern gutta til að mæta í veisluna og gera einhverjar fótboltakúnstir. Fyrir Liverpool aðdáendur væri tilvalið að láta syngja fyrir sig “You’ll never walk alone” sem er einstaklega fallegt lag og er til í íslenskri þýðingu. Einnig væri gráupplagt að brúðguminn myndi vera í takkaskóm.

Svart/hvíttþema: Það ætti ekki að vera erfitt að fylgja þessu þema. Ef þið viljið setja “dress code” þá er auðvelt að biðja fólk um að mæta í svörtum eða hvítum fötum þar sem það eru hvort sem er mjög algengir litir. Blóm, skreytingar, servíettur og dúkar gætu þá verið í hvítu eða svörtu líka. Einnig gæti verið sniðugt að láta útbúa tertuna í þessum litum.

Jólaþema: Það er mjög rómantískt og skemmtilegt að vera með jólabrúðkaup. Þá gæti brúðurin verið með rauðan vönd eða verið svolítið öðruvísi og klæðst rauðum kjól. Þið getið látið fólk strá yfir ykkur gervisnjó í stað hrísgrjóna það er að segja ef það snjóar ekki á brúðkaupsdaginn. Svo getið þið verið með hlaðborð með jólamat og jólavín með. Það væri líka sniðugt að vera með seríur á borðunum til að fá skemmtilega birtu. Það er tilvalið fyrir mikil jólabörn að gifta sig í kringum jólin, þá eru allir í svo hlýju og góðu skapi sem gerir þetta enn skemmtilegra.

Stríðsáraþema: Tískan á stríðsárunum þykir enn í dag vera mjög flott, hvort sem um er að ræða fötin eða förðunina. Tónlistin var líka mjög skemmtileg og jazzinn ríkjandi. Fólk ætti ekki að vera í neinum erfiðleikum með að halda veislu í anda stríðsáranna.

Hrekkjavökuþema: Ef fólk er svolítið léttgeggjað væri gaman að halda almennilegt grímuball. Sérstaklega ef fólk ætlað að gifta sig á tímanum í kringum hina alræmdu Halloween. Þá væri sniðugt aðskreyta með graskerum og vera með grímur á hverjum disk, þó sérstaklega ef fólk á ekki að mæta í grímufatnaði. Þetta getur myndað mjög fyndna og létta stemmningu. 

Höfundur: Guðbjörg Magnúsdóttir