Rings

Þarftu að missa nokkur ....fyrir brúðkaupsdaginn?

tharftuadmissaEf þig langar til að grenna þig fyrir stóra daginn er gott að byrja snemma. Sumum reynist baráttan við aukakílóin erfið en öðrum ekki, en í raun snýst megrun einungis um aga og vilja. Ef ákveðin atriði eru til staðar þá er þetta miklu minna mál en flesta grunar. Hér fyrir neðan eru atriði sem gott er að hafa í huga. Það eina sem þú þarft að gera er að fara eftir þeim ...og þú munt ná árangri. Oft er þetta líka góð leið til að breyta alfarið um lífstíl og tileinka sér hollari lífshætti.

Hreyfðu þig

Það ættu allir að stunda einhverja hreyfingu. Minnst þrisvar í viku ættir þú að skreppa í ræktina, fara út að hjóla með börnin, í sund eða göngu, skokka, á línuskauta eða skíði. Ef þú vilt ná skjótum árangri er gott að æfa allt að 6 sinnum í viku. Það eru óteljandi möguleikar í boði, og upplagt að hafa hreyfinguna sem fjölbreyttasta. Það er vísindalega sannað að þegar við stundum líkamsrækt losar líkaminn um hormón sem heitir endorfín, sem gerir það að verkum að okkur líður betur andlega og verðum léttari í skapi. 

Borðaðu grænmeti og ávexti

Það líkamanum nauðsynlegt að fá grænmeti og ávexti, enda má vart finna hollari fæðu á jörðinni. Fólki er ráðlagt að neyta 5 skammta af ávöxtum og grænmeti á dag. Yfirleitt eru börn vitlaus í þetta, og er upplagt að kaupa melónu eða jarðaber í staðinn fyrir að leyfa þeim að kaupa nammi á nammidögum. Þau geta borðað eins mikið af því og þau vilja án þess að verða snarvitlaus á eftir eins og oft vill verða eftir mikið nammiát, og svo eru ávextirnir fullir af vítamínum. Gott er að hafa niðurskorið grænmeti í plastboxi í ísskápnum og holla ídýfu. Það er mikilvægt að það sé tilbúið skorið og þvegið því oft grípur hungrið okkur á sekúndubroti og við troðum því í okkur sem hendi er næst. Það eru til óteljandi tegundir af ávöxtum og grænmeti sem við vitum varla hvað er og hvernig bragðast. Kynnið ykkur fleiri tegundir svo þið verðið ekki leið á því að borða alltaf það sama. Grænmeti er algjör snilld í matargerð, og einfalt að matreiða, hvort sem þú síður, steikir, grillar eða bakar það. Einnig er mjög gott að matreiða ávexti. Vetu opinn fyrir nýjum uppskriftum og það á eftir að koma þér skemmtilega á óvart í matargerðinni. Keyptu nóg af kryddum til að gera matreiðsluna fjölbreyttari, og eru kryddin frá Pottagöldrum mjög góð og innihalda ekki óholl aukaefni eins og t.d msg.

Borðaðu óunnin kolvetni

Það er mikilvægt að fólk læri hvaða kolvetni eru góð þegar maður vill grennast. Kolvetni eru líkamanum nauðsynleg til að hann geti starfað eðlilega. Þá er átt við óunnin kolvetni, svo sem ávexti, grænmeti, gróf hrísgrjón, heilkornabrauð og brúnt pasta. Þú verður lengur södd/saddur ef þú borðar ríkulega af þessum mat og blóðsykurinn helst í betra jafnvægi. Þar af leiðandi langar þig ekki eins mikið í sætindi. Í öllu hvítu pasta og venjulegu brauði, sælgæti og kökum er mikið af unnum kolvetnum. Reyndu yfir höfuð að forðast þessar fæðutegundir, og þá sérstaklega ef þig langar að grenna þig.

Borðaðu prótein

Þú færð prótein úr kjöti og fisk. Heppilegast er að borða hvítt kjöt og fisk ef þú ert í aðhaldi. Skerðu af alla sjáanlega fitu áður en þú eldar og forðastu að steikja á pönnu, grillaðu frekar í ofni. Einnig er gott að taka húðina af kjúllanum og kalkúninum. Ef þú ætlar að steikja á pönnu er gott að nota viðloðunarfría steikarpönnu og fitulaust sprey í stað olíu. Öll smáatriði skipta máli.

Borðaðu góða fitu

Mettuð fita er slæm en fjölómettuð fita góð. Þetta er gott að læra og notfæra sér í matargerð. Það er mikilvægt að neyta fjölómettaðrar fitu eins og er í fiski, baunum, avokadó og ólívum svo eitthvað sé nefnt. Þó svo að þú sért í aðhaldi þá er það líkamanum nauðsynlegt að fá þessa fitu og alls ekki skaðlegt.

Drekktu mikið vatn

Allir ættu að drekka 8 glös á vatni á dag. En þeir sem vilja grennast ættu að auka vatnið í 2-3 lítra á dag. Vertu ávallt með vatnsbrúsa með þér hvert sem þú ferð og forðastu að drekka annað en vatn með mat. Ef þú átt erfitt með að forðast gosið þá er í lagi að drekka hálfan líter af sykurlausu gosi á dag. Það er í lagi að drekka ávaxtasafa í hófi, en vertu viss um að að hann sé 100% hreinn.

5 til 6 máltíðir á dag

Þetta kann að hljóma mikið en ef þú borðar oftar og minna í einu þá eykst brennslan í líkamanum og gerir það að verkum að hann brennir hraðar fitu. Þú finnur ekki eins mikið fyrir hungri ef þú borðar oft. Láttu ekki líða meira en 3 tíma á milli mála, því þá minnka líkurnar á því að þú verðir svo svöng/svangur og þú farir að borða eitthvað óæskilegt. Einnig helst blóðsykur í jafnvægi, sem er mjög mikilvægur þáttur. Ef við borðum mikið af hvítu hveiti, sætindum eða kökum hækkar blóðsykurinn til muna og lækkar svo mjög hratt aftur og við finnum fyrir löngun í eitthvað sætt. Einnig finna margir fyrir þreytu þegar blóðsykurinn lækkar. Þess vegna er svo mikilvægt að borða rétta fæðu til að halda blóðsykrinum í jafnvægi.

Borðaðu ef þú finnur til svengdar

Ef þú gerir það ekki þá heldur líkaminn að hann sé í svelti og fer að brenna vöðvum en ekki fitu eins og hann á að gera. Borðaðu hægt og rólega og stoppaðu þegar þú ert södd/saddur. Þú þarft ekki að klára matinn eins og mörg okkar þurftum að gera sem krakkar. En ekki borða ef þú finnur ekki til svengdar. Við borðum oft bara ef okkur langar í eitthvað en í mörgum tilfellum vantar okkur eitthvað annað en mat, t.d. líður okkur illa eða erum stressuð svo eitthvað sé nefnt. Reyndu að skilgreina hvað það er sem þig vantar þegar þig langar að troða í þig mat. Farðu í bað, í göngutúr eða eitthvað sem þér finnst skemmtilegt að gera. Ef þú nærð tökum á þessu og gerir þér grein fyrir líðan þinni þá ertu á grænni grein.

Taktu einn dag í viku í sukk

Þú þarft ekki að hætta alveg að borða það sem er óhollt ef þér finnst það gott, heldur takmarka það. Sniðugt væri að taka einn dag í viku og þú getur borðað það sem þig langar í.

Eitt kíló á viku

Ekki búast við því að þú náir af þér nokkrum kílóum á viku, þ.að er óraunhæft og alls ekki hollt. Reyndu að setja þér það markmið að losna við 1 kíló á viku, það er frábær árangur. Ekki vikta þig daglega heldur 1 sinni í viku á sama tíma dagsins, það er marktækt.

Vonandi eru þessar upplýsingar gagnlegar og aðstoða þig við að komast í það form sem þú óskar þér. Láttu þig dreyma um draumakjólinn eða jakkafötin og hvernig þú vilt líta út í fötunum, það hjálpar.

Höfundur: Guðbjörg Magnúsdóttir