Rings

Táknrænar gjafir á brúðkaupsafmælum

taknraenargjafirBrúðkaupum fylgja að sjálfsögðu margar og miklar gjafir, en ekki má gleyma því að gjafir tilheyra líka brúðkaupsafmælum. Yfirleitt er það eiginmaðurinn sem færir konu sinni gjöf á brúðkaupsafmælum en nú á dögum jafnréttis er ekki úr vegi að þessi siður verði gagnkvæmur og að konan gefi manni sínum einnig gjöf. 

Í gegnum tíðina hafa ákveðnir málmar og eðalsteinar verið tákn hátíðlegustu brúðkaupsafmælanna og þau dregið nafn sitt af þeim. Þannig er 25 ára brúðkaupsafmæli kallað silfurbrúðkaup, 50 ára er kallað gullbrúðkaup og 75 ára afmælið er kallað demantsbrúðkaup. Þetta þekkja flestir... en hvernig væri að kanna hvað tilheyrir öðrum brúðkaupsafmælum? 
  
Gjafir á hverju ári til að byrja með!

Á fyrsta afmælinu er táknið pappír. Svo upplagt er að gefa góða bók eða eitthvað annað úr pappír.

Annað brúðkaupsafmælið er helgað bómull, litprentuðu lérefti eða strái. Tilvalið er að gefa einhvern fatnað úr þessum efnum. 
  
Þriðja árið er leðurbrúðkaup. Þá væri hægt að gefa skó, leðurhanska, tösku eða eitthvað slíkt. 
  
Á fjórða brúðkaupsafmælinu er valið einfalt, því á því ári fylgja blóm, ávextir, bækur, lín og silki. En það er kallað silkibrúðkaup. 
  
Á fimmta ári er trébrúðkaup og það gefur auga leið að hægt er að gefa húsgagn eða bara föndra eitthvað úr við. 
  
Sjötta árið er sykurbrúðkaup og er það ár tileinkað sætindum og járni. Ef til vill gæti hún gefið honum verkfæri og hann henni búsáhöld, en þá væru þau eflaust svolítið föst í gryfju kynjahlutverkanna. 
  
Sjöunda árið er fjölbreytilegt: ull, kopar, messing og brons. Þá dettur gætu gjafirnar verið einhverjir smámunir eða ullarfatnaður. 
  
Á áttunda brúðkaupsafmælinu ber að gefa brons, leir eða gúmmí. Fyrstu tvö eru auðveld og áreiðanleg en gúmmíið minnir marga ekki á annað en gúmmístígvél eða dekk undir bílinn! 
  
Níunda árið erum við aftur komin í leirinn. En þó er mælt með víðiplöntu! Það er hægt að gefa leirker undir blóm eða annað úr leir.

Eitthvað gagnlegt fyrir báða aðila.

Tíunda brúðkaupsafmælið er tileinkað tini eða áli. Hvernig væri að brúðhjónin fengu sér nýja álplötu á þakið...... svona ef þörf er á! 
  
Ellefta árið er enn erfiðara því það er stálbrúðkaup. Látum nú hugmyndaflugið ráða ferðinni og gefum elskunni okkar eitthvað úr stáli, t.d. skóflu J 
  
Tólfta afmælinu fylgir silki, nælon og lín og horfum aftur til fatnaðar sem verðugrar gjafar. 
  
Á þeim þrettánda er mælt með blúndum. Þar sem karlar nota lítið af slíku þá geri ég ráð fyrir að þessi listi sé fyrir daga alls jafnréttishjals. 
  
Fjórtánda afmælið er fílabeinsbrúðkaup og verða líklega skartgripir fyrir valinu. 
  
Á fimmtánda brúðkaupsafmælinu veljum við gler og kristal. 
  
Nú bendir allt til þess að einhver þreyta sé komin í afmælishaldið því það er ekkert sérstakt ráðlagt á 16., 17., 18. og 19. brúðkaupsafmælinu. En ætlast er til að haldið sé upp á það 20. með postulíni. Án efa er kominn tími til að gefa konunni postulínsstell! 
  
Hátíðisdögum í hjónabandinu er þar með farið að fækka og aðeins talað um brúðkaupsafmæli á 5 ára fresti upp frá þessu.Silfurbrúðkaupinu sem við töluðum um í upphafi er fagnað á 25. aldursári hjónabandsins. Þrjátíu ára brúðkaupið er helgað perlum og persónulegum hlutum, það 35. kóröllum og jaði, það 40.rúbínum og granati. Á 45. afmælinu er mælt með safír og svo næst er það gullbrúðkaup og við vitum hvað á að gefa á þeim degi. Af þessu má draga ályktun að fjárhagur fjölskyldunnar sé farinn að batna til muna, því eðalsteinar og málmar eru ekki beint fyrir fátæk nýgift hjón. Á 55.afmælinu veljum við túrkis og emerald, á því 60. demanta og gull og á það síðasta á listanum er75 ára brúðkaupsafmælið, en það ber nafnið demantsbrúðkaup.

Eftir alla þessa upptalningu vona ég að fólk eigi ekki eftir að vera í vandræðum með að finna viðeigandi gjöf handa elskunni sinni.

Höfundur: Fríða Björnsdóttir 
Endursagt: Guðbjörg Magnúsdóttir