Rings

Sambönd og svefn

sambondogsvefnEru hroturnar að ganga frá hjónabandinu?

Ekki geta öll hjón eða pör sofið í sama rúmi á nóttunni. Annar aðilinn hrýtur svo hátt að hinum er lífsins ómögulegt að sofa. Það getur haft slæm áhrif og verið særandi fyrir annan aðilann að vera ásakaður um eitthvað sem hann ræður ekki við. Sumir sofa laust og vakna ef makinn fer á klósettið eða hrýtur lágt. Svefnvenjur fólks eru mjög ólíkar, sumir eru nátthrafnar og aðrir morgunhanar. Einn vill sofa við opinn glugga  og hafa kalt í svefnherberginu á meðan hinn vill hafa hlýtt og notalegt og gluggann harðlokaðan. Sumir hafa hátt þegar þá dreymir og sumir vilja hafa ljós á meðan aðrir geta bara sofið í myrkri. Tikk í vekjaraklukku er notalegt í eyrum margra á meðan sumir geta ekki sofið fyrir því. Gert var könnun þar sem kom í ljós að í 11% hjónabanda hrýtur annar aðilinn það mikið að hinn verður að sofa í öðru herbergi.

Hvað er til ráða?

Fyrir mörg hjón geta  eyrnatappar leyst vandamálin að einhverju leyti, einnig tvær dýnur í stað einnar í hjónarúminu og hitateppi fyrir þann aðilann sem vill meiri hita. Alvarlegri vandamál geta útheimt ferð til læknis. Háværar hrotur eru oft merki um kæfisvefn sem getur verið hættulegur og þarf meðferðar við. Einnig er hægt að ráða bót á óværum svefni, martröðum svefnleysi með því að tala við sálfræðing.
Mikilvægt er að gorfa á svefnvandamál sem vandamál parsins en ekki einstaklingsins. Hjón komast oft í mikið uppnám ef þeim tekst ekki að sofa í sama rúmi án vandamála og getur það haft óæskileg áhrif á hjónabandið. Best er að tala um vandamálið af ástúð og hreinskilni í stað ásakana og reiði. Markmiðið ætti að vera nokkurs konar skynsamleg málamiðlun þar sem parið skiptist á að gefa eftir. Sá sem vill sofna við ljós gæti farið að sofa og hinn þá slökkt ljósið þegar hann færi í háttinn. Einnig er hægt að skiptast á að sofa í gestaherberginu. Það ætti ekki að skaða sambandið þótt ekki sé alltaf sofið saman. Annar aðilinn gæti notið þess í laumi að fá smá einkalíf aftur. En það að vakna einn of marga morgna getur minnkað hið innilega samband.
Ef eina leiðin til að geta sofið reynist vera að sofa í sitt í hvoru herberginu þá er gott að nota smátíma saman, áður en farið er að sofa, til að kela, spjalla eða stunda kynlíf. Komið ykkur upp föstum venjum og leyfið kynlífinu ekki að fjara út. Ef þið eruð of þreytt á kvöldin reynið þá að hafa saman klukkutíma í rúminu næsta morgunn. Hafið ljósmynd af ykkur saman á náttborðinu. Reynið að gera gott úr öllu saman.

Höfundur: Guðbjörg Magnúsdóttir