Rings

Neglur og umhirða þeirra

neglurogumhirdaFallegar neglur eru mikil prýði, en að sama skapi er ljótt að sjá illa hirtar og nagaðar neglur, og á þetta jafnt við um kvenmenn sem karlmenn. Á hverju heimili ætti því að vera til naglabudda sem inniheldur: naglaþjöl (ekki grófa), bómullarhnoðra, naglaherði og lakk, naglalakkaeyði, hand/naglakrem, naglabandaeyði (fyrir sprungin og ofvaxin naglabönd), litla skál, og naglabandapinna.

Ef fólk hefur tíma og peninga aflögu er ráðlegt að fara í handsnyrtingu til snyrtifræðings á 3ja vikna fresti og láta stjana við sig. Inn á milli þarf þó að snyrta neglurnar ef hámarksárangri skal náð.

Það tekur neglurnar 3 mánuði að vaxa alveg frá rótum og ef þú vilt fá fallegar neglur þarftu að hefjast handa sem fyrst. Við sérstök tilefni eins og giftingar er tilvalið að hugsa um neglurnar fram í tímann og láta þær vaxa svolítið. Margar brúðir kjósa að fá sér gervineglur fyrir stóra daginn en það er þarf ekki endilega að vera fallegra. Konur með gervineglur þurfa að láta laga þær á 2-4 vikna fresti svo vel megi við una og jafnvel oftar ef þær brotna, sem oft vill því miður gerast. Sama hvað hver segir þá verða alvöru neglurnar nánast alltaf lélegar undir gervinöglunum. Sértu með gervineglur eða nýbúin að láta taka þær af þér og vilt ná þínum góðum skaltu byrja sem fyrst að hirða þær.

Skynsamlegt er að taka frá tíma allavega einu sinni í viku með naglabuddunni góðu. Það er tilvalið að gera þetta fyrir framan sjónvarpið á meðan gónt er á skemmtilegan þátt eða góða bíómynd. Því sjaldnar sem neglurnar eru teknar í gegn þeim mun algengara að þær brotni og það verður erfiðara fyrir þig að safna þeim fyrir vikið. Láttu fagaðila leiðbeina þér um hvaða efni og aðferðir þú átt að nota fyrir þínar neglur, vegna þess að það er EKKI sama hvernig farið er að.

Naglaráð sem hitta naglann á höfuðið

Eftirfarandi atriði er gott að hafa í huga við naglahirðu. Byrjaðu á því að setja  volgt vatn í skál og bæta dálítilli ólívuolíu út í. Olían er MJÖG góð fyrir neglurnar og nærir þær á allan hátt, og síðast en ekki síst örvar hún vöxt þeirra.

  • Ef þú ert með gamalt naglalakk skaltu byrja á því að taka það af. Forðastu að þjösnast á nöglunum, en láttu heldur bómullina hvíla á hverri nögl í nokkrar sekúntur.
  • Þjalaðu því næst neglurnar. En ekki með því að hjakkast fram og aftur með þjölina, heldur með því að renna henni rólega einu sinni í einu eftir naglabrúninni (mjög mikilvægt).
  • Settu naglabandaeyði á naglaböndin ef þess þarf.
  • Settu svo hendurnar í skálina með vatninu og ólífuolíunni og hafðu þær í bleyti í svolitla stund (10-15 mín.) má vera lengur.
  • Næst skaltu taka handklæði og þurrka þér vel um hendurnar og nota handklæðið síðan til að ýta naglaböndunum upp frá nöglinni. Einnig er gott að nota naglapinna til þessa verks.
  • Skolaðu hendurnar þvínæst með hreinu vatni.
  • Núna er tilvalið að setja naglalakk á neglurnar til að hlífa þeim. Ef þú  ætlar að setja litað lakk er MJÖG mikilvægt að setja undirlakk fyrst.
  • Þegar lakkið er orðið þurrt er tilvalið að bera góðan handáburð á hendurnar og nudda vel yfir naglaböndin.

Ef þú framkvæmir þessa handsnyrtingu reglulega máttu búast við að neglurnar verði orðnar miklu fallegri fyrr en varir.

Gangi þér vel!

Höfundur: Guðbjörg Magnúsdóttir