Rings

Mjúkur búkur!

mjukurbukurYfir hávetrartímann verð ég alltaf eins og hálfgerður Hobbit sem vill bara kúra í holunni sinni. Þá elska ég að liggja í sófanum, hlusta á einhverja skemmtilega geisladiska og lesa góðar bækur eða tímarit. Ekki skemmir það stemmninguna ef einhver sætur nennir að klóra mér á bakinu um leið. 

Ég er samt búin að komast að því að þegar letin nær yfirhendinni þá verð ég ekkert sérlega sátt við sjálfa sig. Yfir sumartímann er ég alltaf mun sprækari og virðist hafa miklu meiri orku. Þá elska ég að svamla í Vesturbæjarlauginni, er dugleg að borða grænmeti, fara salíbunur á línuskautunum mínum og er endalaust að bera eitthvert fínerí á húðina. Þetta gerir það að verkum að maður verður alveg syngjandi glaður sama hvað á dynur. 

Þar sem nýtt ár hefur í garð gengið og enn er skammdegið að hrjá okkur þá ákvað ég að gefa ykkur uppskrift að húðskrúbbi sem frískar húðina í dimmunni. Þetta húðskrúbb er algjör snilld. Það losar okkur við gömlu húðfrumurnar, mýkir húðina og hefur áhrif á myndun appelsínuhúðar. Er hægt að biðja um meira?

Til að búa til þetta frábæra húðskrúbb er nauðsynlegt að hafa 1 kíló af grófu sjávarsalti við höndina, Ólífuolíu , skál (helst með loki), sleif til að hræra í og einhverja góða ilmkjarnaolíur.Ilmkjarnaolíur frá L´occitane eru alveg brilljant eins og Vala Matt myndi segja. Ég nota sjálf mest Ylang-Ylang og LavanderRosmarinilmurinn er líka góður og einnig sítrusinn. Lyktirnar eru smekksatriði og ég get ekki dæmt um það hvað best er að nota. Hver og einn verður bara að finna sinn ilm.

Ég byrja á því að hella saltinu í skál. Síðan helli ég ólífuolíunni út í þannig að hún bleyti vel í saltinu. Síðast bæti ég ilmkjarnaolíunni saman við. Þrír dropar eru lámark og tíu dropar hámark. Mér finnst best að hafa nóg af ilmkjarnaolíu því það er aldrei of mikið af lavander í minni tilveru. Nú er bara að hræra þessu öllu saman og húðskrúbbið er þá tilbúið til brúks.

Þegar allt er klárt er algerlega mál málanna að koma sér vel fyrir í sturtunni, bera skrúbbið á sig (annað hvort með sjálfum höndunum eða með grófum heilsu prjónahönskum) og brosa framan í skammdegið!

Texti: Marta María