Rings

Mikilvægt að hirða vel um hárið

mikilvaegtOlga Másdóttir hárgreiðslumeistari og eigandi hárgreiðslustofunnar Hárhönnun.

„Verðandi brúðir þurfa fyrst og fremst að byrja á því að panta sér tíma á hárgreiðslustofu með góðum fyrirvara,“ segir Olga Másdóttir, hárgreiðslumeistari og eigandi hárgreiðslustofunnar Hárhönnun, á Skólavörðustíg. „Svo þarf að ákveða hvenær prufugreiðslan á að fara fram. Yfirleitt geri ég hana um leið og ég legg lokahönd á útlit hársins, þ.e.a.s. lita það og klippi í síðasta skipti fyrir brúðkaupið en það er yfirleitt um einni til tveimur vikum áður. Ef ástand hársins er slæmt og það er t.d. þurrt, þarf að gera ráðstafanir til að byggja hárið upp. Við bjóðum upp á mjög árangursríkar olíumeðferðir sem er oft nóg að fara í tvisvar til þrisvar sinnum fyrir brúðkaupið. Einnig er hægt að auka glans hársins með hárlitun eða -skoli. Ef hárið á að vera slegið á brúðkaupsdaginn skiptir mjög miklu máli að það sé fallegt og umhirða þess sé góð. Þær sem vilja prófa nýjan hárlit eða klippingu ættu að gera það tímanlega en í fæstum tilfellum mælum við með því að konur breyti mikið um stíl stuttu fyrir brúðkaup. Eigi hárið að vera uppsett ætti ekki að þvo það rétt fyrir stóra daginn og á þetta sérstaklega við um þær sem eru með sjálfliðað hár. Ég kýs líka að konur með slétt og fíngert hár láti vera að þvo það sjálfar heldur leyfi mér að meta hvort þess þurfi og þvo þeim þá sjálf um hárið. Áður fyrr lenti ég stundum í því að þótt prufugreiðslan hefði gengið vel og konurnar notuðu réttu hárvörurnar þá var hárið e.t.v. allt of lint á brúðkaupsdaginn því þær notuðu of mikið af hárnæringu.“ Olga bendir einnig á að klórinn í sundlaugarvatninu fari illa með hárið og hún ráðleggur verðandi brúðum að forðast sundlaugarnar stuttu fyrir brúðkaup eða nota a.m.k. sundhettu til að hlífa hárinu. En hvað með karlmennina – hvað geta þeir gert til að hlúa að hárinu? „Hvaðbrúðgumana snertir er gott að þeir komi í klippingu viku fyrir brúðkaupið og láti lita hárið um leið ef þeir kjósa svo. Ég mæli líka með því að þeir komi í olíumeðferð eins og konurnar. Henni fylgir gott axla- og höfuðnudd sem losar um streitu og er gott fyrir líkama og sál. Svo leiðbeinum við verðandi brúðgumum um val á hárvörum og margir þeirra koma einnig við hjá okkur á brúðkaupsdaginn og láta okkur sjá um hárgreiðsluna.“

Höfundur: Heiðdís Lilja