Rings

Merki um framhjáhald

merkiumframhjahaldÞekktur breskur lögfræðingur sem hefur sérhæft sig í skilnaðarmálum þekkir betur til framhjáhalds en flestir aðrir, enda hafa margir skjólstæðinga hennar annaðhvort verið gerendur eða þolendur ótryggðar í hjónabandi. Lögfræðingurinn, sem heitir Vanessa Lloyd Platt, segir að við höfum ástæðu til að óttast um tryggð makans ef við könnumst illþyrmilega við einhver af eftirtöldum atriðum:

Nærföt og hreinlæti
Allar breytingar í tengslum við nærföt eru mjög tortryggilegar þ.e.a.s. ef nærbuxnabyrgðirnar eru endurnýjaðar eða makinn skiptir oftar en venjulega um nærbuxur. Þetta á ekki síst við ef eiginmaðurinn eignast skyndilega svokallaðar boxarabuxur úr silki. (Keypti hann þær sjálfur eða voru þær gjöf frá viðhaldinu?) 
Það er líka áhyggjuefni ef maðurinn var ekkert sérlega þrifinn en er nú farinn að demba sér í sturtu kvölds og morgna. Ef til vill er hann líka byrjaður að klippa hárin í nefinu og eyrunum og kannski hefur þú gripið hann glóðvolgan fyrir framan spegilinn þar sem hann dregur bumbuna inn og þenur brjóstkassann. Ekki batnar það ef þinn heittelskaði er þar að auki búinn að fjárfesta í nýjum jökkum, síðbuxum eða skyrtum. 
Saklausasta skýringin á þessum breytingum gæti verið sú að grái fiðringurinn hafi gert vart við sig. (Sú getur verið raunin ef hann er á aldrinum 35-55 ára.) Maðurinn er þá kannski bara  að reyna að streitast á móti móður náttúru. Í versta falli er hann fastagestur á fatafelluklúbbum.

Ilmvatnslykt
Ef maki þinn angar af ilmvatni hefur hann verið í návígi við aðra konu ekki síst ef þú finnur líka varalit á skyrtunni hans.

Bólfimi
Það er mjög dularfullt ef frammistaða makans í rúminu verður skyndilega betri en áður. Hefur hann verið að æfa sig með annarri konu? Þverrandi áhugi hans á kynlífi gæti einnig verið merki um að hann fái þörfum sínum fullnægt í fangi (og rúmi!) annarrar konu.

Bíllinn
Ef þú grunar maka þinn um græsku er sterkur leikur að grandskoða bílinn hans og leggja sérstaka áherslu á hanskahólfið og svæðið undir sætunum. Það er aldrei að vita hvað þú finnur þar! Fylgstu líka vel með því hvort frásagnir mannsins stangast á við það sem fram kemur á kílómetramælinum. Var hann hjá viðhaldinu í næstu götu þegar hann sagðir vera í veiðiferð með kunningjunum?

Viðbrögð
Ef maðurinn er með svarta samvisku kemur hann upp um sig þegar þú spyrð beint út hvert hann sé að fara. Verður hann vandræðalegur og roðnar upp í hársrætur? Eða gnístir hann kannski tönnum og hvæsir á þig? Ef hann spyr hvort þú treystir honum ekki ættu viðvörunarbjöllur að fara í gang.

Vasarnir
Oft má finna sönnunargögn í jakka- og buxnavösum  t.d. reikninga og ýmislegt annað.

Síminn
Upplýsingar sem hægt er að kalla fram á skjá gemsans koma að góðum notum þegar kanna á við hvern eiginmaðurinn var að tala í hálfum hljóðum inni á baðherbergi. Í hvern hringdi hann síðast og hver hringdi síðast í hann? Það segir einnig sína sögu og hana ekki skemmtilega ef oft er lagt á þegar þú svarar heimilissímanum.

Reikningar
Sumir gera þau mistök að nota kredit- eða debetkort til þess að borga fyrir ýmislegt sem gert er í þágu viðhaldsins. Ef þú skoðar yfirlitið yfir útgjöld mánaðarins getur þú lagt saman tvo og tvo. Gættu þess bara að æsa þig ekki út af hárri úttekt í skartgripa- eða pelsabúð ef þú átt afmæli innan nokkurra daga!

Allt í plati
Ef þú grunar maka þinn um græsku þarft þú að vera vel á verði. Er handklæðið hans þurrt þegar hann kemur úr líkamsrækt eða sundi? Þá er hugsanlegt að hann sé með óhreint mjög í pokahorninu.

Höfundur: Jónína Leósdóttir
Grein úr Nýju lífi