Rings

Lifðu í lukku...

lifduilukkuFátt er yndislegra en að verða yfirmáta ástfangin/n. Fyrstu vikur ástarsambandsins eru yfirleitt rafmagnað tímabil en það er ekki þar með sagt að við þurfum sífellt að stofna til nýrra sambanda til þess að upplifa þetta ástand aftur og aftur. Mun farsælla er að byggja upp traust og gott ástarsamband sem heldur áfram að vera spennandi ár eftir ár eftir ár. 
Breski sálfræðingurinn Susan Quilliam, sem hefur sérhæft sig í hjónaráðgjöf, mælir með eftirfarandi ráðum fyrir þá sem vilja lifa í hamingjusömu hjónabandi:

VELDU lífsförunaut sem styður þau markmið sem þú hefur sett þér í lífinu t.d. varðandi nám, vinnu, barneignir, búsetu o.s.frv. Það skapar togstreitu ef þið eruð ekki sammála um slík grundvallaratriði.

HORFÐU ávallt á jákvæðu hliðarnar. Það er auðvelt að falla í þá gryfju að einblína á það sem er ekki eins og maður vill hafa það. Slíkt viðhorf hefur hins vegar afar slæm áhrif á sálarlífið. Þú verður hamingjusamari ef þú hugsar meira um allt það góða við líf þitt en það sem betur mætti fara.

TALAÐU í rólegheitum við maka þinn í a.m.k. tíu mínútur á dag, jafnvel þótt ykkur liggi ekkert sérstakt á hjarta. Ein af mikilvægustu undirstöðum trausts ástarsambands er að geta talað um hvað sem er við makann og vita að hann er alltaf reiðubúinn til að hlusta.

LÆRÐU að lifa með þeirri staðreynd að þið eruð ólík. Þær aðstæður skapast í öllum samböndum að fólk greinir á. Lykillinn að hamingjunni er ekki að forðast ágreining heldur að kunna að takast á við hann.

HRÓSAÐU makanum og vertu góð við hann þegar hann gerir eitthvað fyrir þig. Það þýðir hins vegar ekkert að nöldra og rífast þegar hann hegðar sér ekki eins og þú vilt. Þá farið þið bæði í vont skap. Reyndu frekar að halda aftur af skömmunum.

FAÐMAÐU hann og kysstu eins og þér sé borgað fyrir það. Þetta á ekki síst við þegar mikillar streitu gætir í lífi ykkar. Líkamleg snerting er róandi og styrkir sambandið. Það er t.d. mjög jákvætt fyrir hjón að hjúfra sig smá stund hvort upp að öðru áður en þau fara að sofa.

LÁTTU það ekki koma þér á óvart þótt kynlífið gangi dálítið í bylgjum. Það er óraunsætt að ímynda sér að ástríðuhitinn verði ávallt eins og í upphafi sambandsins. Þó er mikilvægt að leita aðstoðar ef kynhvötin hverfur svo til alveg í langan tíma.

EF þið eignist börn skaltu búast við því að erfiðara geti reynst að viðhalda hjónabandssælunni. Þvert á það sem ætla mætti dofnar oft yfir sambandinu þegar börnin koma til sögunnar. Til þess að bregðast við þessu er nauðsynlegt að hjónin reyni sem oftast að eiga stundir saman, tvö ein.

EKKI láta það setja þig úr skorðum þótt þið takið bæði breytingum í áranna rás og sambandið þar með líka. Allir breytast og þroskast með tímanum og við það að ganga í gegnum alls kyns lífsreynslu. Þetta á bæði við um ykkur sem einstaklinga og um samband ykkar hvort við annað.

LEITAÐU þér aðstoðar ef miklir erfiðleikar koma upp í hjónabandinu. Við þær aðstæður getur verið gott að tala við prest, sálfræðing, heimilislækni, félagsráðgjafa, geðlækni eða annan sérfróðan aðila.

Þýtt og endursagt: Jónína Leósdóttir
Grein úr Nýju lífi