Rings

Koddahjal

koddahjalBreskt fyrirtæki sem framleiðir sængur hefur látið gera könnun á því hvernig fólk þar í landi hegðar sér í rúminu. Niðurstaðan bendir til þess að um þriðjungur Breta haldi áfram að sinna vinnunni – m.a. með aðstoð síma og tölvu – eftir að komið er upp í rúm. Eins og búast má við fær þetta fólk alls ekki nægan svefn. Þessi tiltekna könnun og aðrar svipaðar sýna að um 35% fólks í Bretlandi sofa aðeins í sex klukkustundir eða jafnvel enn skemur. Það þýðir að “svefnskortur” þessa hóps er um einn mánuður á ári!

Samkvæmt könnuninni virðist þó fleira en vinnan halda vöku fyrir fólki. Þeir sem deila rúmi með öðrum sofa t.d. verr en þeir sem sofa einir. Meginástæðan er sú að hrotur í makanum trufla nætursvefninn – en talsverður munur er á kynjunum hvað þetta varðar. Um 35% kvennanna kvörtuðu undan hrotum en aðeins 19% karlanna höfðu yfir slíku að kvarta. Um 10% kvennanna sögðust eiga í erfiðleikum með að sofa vegna þess að makinn væri sífellt að bylta sér í svefni. Ein af hverjum sex konum sagðist þar að auki sofa illa vegna þess hve maki þeirra svitnaði mikið að næturlagi.

Höfundur: Jónína Leósdóttir
Grein úr Nýju lífi