Rings

Klæðnaður

klaednadurFatnaður er eitt af því sem þarf að huga að í tíma fyrir brúðkaupið en eins og margt annað er hann háður tískusveiflum. Í ár eru einfaldir og stílhreinir brúðarkjólar í fyrirrúmi en þó örlítið meira um skraut en var í fyrra. Vinsælasti liturinn er beinhvítur og er mikið lagt upp úr gæðum efnanna. Aðrir ljósir litir eru líka alltaf vinsælir en nú hefur verið bryddað upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á kjóla í gráu, bláu og gylltu.

Brúðarkjóllinn vekur alltaf mesta athyglina enda brúðurin í aðalhlutverki á brúðkaupsdaginn. Hvort sem brúðarkjóllinn er fenginn að láni, leigður, keyptur eða sérsaumaður verður að vanda val á honum því flestar konur vilja að hann sé bæði glæsilegur og sígildur. Ef kjóllinn er keyptur vilja flestar konur að sniðið standist tímans tönn þannig að jafnvel sé hægt að nota hann kynslóð eftir kynslóð. 
Góður brúðarkjóll ætti að draga fram það besta í fari brúðarinnar en við val á honum þarf að huga að hæð, vexti og litarhafti brúðarinnar til að hann fari brúðinni vel og hún njóti sín sem best. Brúðinni verður umfram allt að líða vel í þeim kjól sem hún velur sér. Flestar konur hafa nokkuð mótaðar hugmyndir um hvernig brúðarkjól þær vilja en ættu að vera óhræddar við að prófa önnur snið því þau geta komið á óvart. 
Áður en kjóllinn er endanlega valinn er gott að máta hann með öllum fylgihlutum, skóm og slöri til að vera fullviss um að allt fari vel saman og brúðurin sé ánægð.

Slör og höfuðskraut, oft litlar kórónur eða blómaskraut, fylgja oftast brúðarkjólnum. Slörið er fest í hárið, sem og kórónan, en hún er oftast spöng, skreytt með flúri, perlum eða steinum. Oft fellur hún inn í hárgreiðsluna. 
Ekki má gleyma undirfötunum en ljós, heil korselett hafa verið vinsæl sem undirföt brúðar. Ljósir nælonsokkar með blúndu efst, gjarnan festir með sokkaböndum, hafa einnig verið vinsælir.

Úrvalið af fötum fyrir brúðgumann er alltaf að aukast. Undanfarið hafa ensk hefðarmannsföt (á ensku jackett, en það eru teinóttar buxur, lafajakki, og vesti með slifsi eða hálsklút) verið mjög vinsæl en nú eru hin glæsilegu kjólfötkomin í tísku aftur. Einnig er smóking, íslenski hátíðarbúningurinn eða falleg jakkaföt sívinsæl en eins og brúðurin ætti brúðguminn að velja þau föt sem fara honum best og honum líður vel í. Við val á vesti eða hálstaui þykir við hæfi að brúðguminn velji liti úr klæðnaði brúðarinnar eða brúðarvendi til að brúðhjónin séu í stíl.

Fatnaður brúðarmeyja, brúðarsveina og svaramanna er oftast valinn í samræmi við það sem brúðhjónin klæðast.

Að lokum er vert að minna á að yfirfara skófatnað, bursta skóna og taka verðmiða af sólunum og slíkt því að þeir blasa við kirkjugestum þegar kropið er við altarið. 
Verð á brúðarkjólum til eignar er afar mismunandi eftir efni og umfangi en þá er hægt að fá frá 40.000 kr. - 90.000 kr. Leiga á brúðarkjólum er á bilinu 18.000 kr. - 38.000 kr. Leiga á fötum fyrir brúðgumann er frá 4.500 kr. - 8.000 kr.

Höfundur: Sigríður Inga
Grein úr Gestgjafanum