Rings

Kirkjuleg hjónavígsla

kirkjulegKirkjuleg hjónavígsla fer yfirleitt fram í kirkju og að minnsta kosti tveir svaramenn verða að vera viðstaddir athöfnina. Brúðguminn og svaramaður hans eiga að vera komnir 30-40 mínútum fyrir athöfn. Þeir sitja hægra megin í kór kirkjunnar og standa upp og hneigja sig fyrir hverjum gesti sem gengur inn. Það er skemmtilegur siður að mæður brúðhjóna bjóði gesti velkomna við kirkjudyr og að einhver afhendi dagskrána, hafi hún verið prentuð, og vísi jafnvel til sætis. Á meðan fólk situr og bíður eftir brúðinni er gott að hlýða á ljúfa tónlist. Hér á landi tíðkast við brúðkaup að konur sitji vinstra megin í kirkjunni en karlar hægra megin og er sjálfsagt að halda í þennan þjóðlega sið.

Þegar fyrstu tónar brúðarmarsins eftir Wagner taka að hljóma frá orgelinu eða því hljóðfæri sem notað er (sumir hafa t.d. eingöngu trompetleikara og sleppa orgelinu), rísa kirkjugestir úr sætum og brúðurin gengur inn kirkjugólfið við vinstri hlið svaramanns. Þau setjast svo gegnt brúðguma og svaramanni hans. Að lokinni inngöngu er lesin bæn eða sunginn sálmur. Þá ganga brúðhjónin að altari og stendur brúðurin brúðgumanum á vinstri hlið. Prestur flytur ávarp og ritningarorð en syngja má sálm eða flytja tónlist á milli ávarps og ritningarorða. Eftir ritningarorðin fylgir hjónavígslan sjálf, vígsluheit, handsal, yfirlýsing, bæn og blessunarorð og krjúpa brúðhjón meðan bænin er flutt. Séu hringar settir upp í athöfninni gerist það á undan handsali og bæn. Að því búnu smella brúðhjónin langþráðum kossi hvort á annað. Ef sunginn er sálmur eftir hjónavígslu setjast brúðhjónin og situr brúðurin þá í sínu fyrra sæti og brúðguminn við hlið hennar. Eftir sálminn ganga brúðhjónin út og brúður gengur brúðguma til hægri handar. Brúðkaupsmarsinn eftir Mendelssohn er oftast notaður sem útgöngulag en velja má hvaða lag sem er og hefur Óðurinn til gleðinnar eftir Beethoven t.d. einnig verið vinsæll. Fyrir utan kirkjuna keppast vinir og vandamenn venjulega við að kasta hrísgrjónum yfir brúðhjónin en það táknar ósk um frjósemi og farsælt líf. 

Höfundur: Heiðdís Lilja
Grein úr Nýju lífi