Rings

Kæri brúðgumi

Það virðist vera mjög algengt hjá tilvonandi brúðhjónum að brúðkaupsundirbúningurinn sé sem mestmegnis í höndum brúðarinnar. Ef til vill fallast brúðguma oft hendur þegar hann sér að þetta virðist heltaka brúði sína. En við konur erum oft svolítið stjórnsamar og viljum ganga frá öllu sjálfar og oft lítur út fyrir að við viljum ekki hafa ykkur strákana með í ráðum, en það er ekki tilfellið. Við viljum fá skoðun ykkar á sem flestum hlutum eins og hvaða matarstell er flott og hvað ekki, því slíka hluti er mikilvægt að velja saman. Mjög margar konur hafa beðið eftir þessum degi með eftirvæntingu allt frá því þær voru litlar hnátur, og vilja helst hafa þennan dag fullkominn. Einnig allt sem honum tengist og því ekki að undra að metnaðurinn við skipulagninguna geti orðið mikill.

Það er mjög mikilvægt atriði að brúðhjónin tilvonandi hlusti á hvort annað og beri virðingu fyrir óskum hvors annars, hverjar sem þær kunna að vera. Gerið hlutina í sameiningu, það er svo skemmtilegt og svo ótalmargir hlutir sem þarf að ganga frá. Hér fyrir neðan koma nokkrar tillögur af því sem þú, brúgumi góður, gætir tekið að þér að gera með eigin frumkvæði, ef þú veist ekki hvar skal byrja.

Tónlist og önnur skemmtiatriði

Þegar þið eruð búin að ákveða hverjir eiga að skemmta í brúðkaupinu, hvort sem um er að ræða í athöfninni sjálfri eða í veislunni, getur þú tekið það að þér að hafa samband og bóka viðkomandi aðila. Það er mikilvægt að gera það með góðum fyrirvara ef þið viljið fá vinsæla tónlistarmenn eða leikara.

Tæknilega atriði

Það þarf að vera á hreinu hvort þið þurfið hljóðkerfi í veisluna fyrir tónlist, skemmtiatriði eða ræður. Sumir skemmtikraftar koma með sínar eigin græjur og þá getið þið væntanlega fengið afnot af þeim, en þetta þarf að vera á hreinu.

Brúðarbíll eða annar kostur til flutnings

Komið ykkur saman um hvaða farartæki þið óskið eftir til að flytja ykkur á milli staða. Þessu getur þú tekið að þér að ganga frá.

Veitingar 

Ef þið ákveðið að sjá um veitingarnar sjálf er tilvalið fyrir brúðgumann að kaupa inn. Kynnið ykkur í tíma hvar þið getið gert hagstæðustu kaupin á t.d. kjöti og víni, og verið búin að smakka allt sem þið hyggjist bjóða upp á, áður en á hólminn er komið. Margir telja skynsamlegast að fá kokk til að elda matinn og þá er einfaldast að hann sjái einnig um innkaupin. Kokkar hafa gjarnan góð sambönd og fá kannski veitingarnar ódýrari en þið eigið kost á. Þótt að þið fáið sérfræðing til að elda matinn getið þið haft allt um það að segja hvað boðið er upp á, ef það er ósk ykkar.

Svo eru ótal margir aðrir hlutir sem þið getið tekið að ykkur, eins og að:

  • Bóka ljósmyndara
  • Bóka hótelherbergi
  • Skipa veislustjóra
  • Versla í matinn í veisluna

Svo ef þú hefur áhuga á, þá þarf líka að velja blóm og skreytingar, velja boðskortin og margt margt fleira. Eins og sagt er hér fyrir ofan þá er þetta spurning um að komast að samkomulagi hver á að gera hvað, hvað sem það svo er. GANGI YKKUR VEL!!!!

Höfundur: Guðbjörg Magnúsdóttir