Hugmyndir að skreytingum fyrir brúðkaup
Þegar hugað er að skreytingum fyrir brúðkaup eða er aðalatriðið að byrja á því að velja þema, t.d. sumar- eða vetrarbrúðkaup, sveitabrúðkaup, heimabrúðkaup o.s.fr. Einnig er mikilvægt að velja kjólinn áður en þú velurblómin í vöndinn, og út frá vendinum getur þú svo farið að hugsa um hvernig blóm geta verið í brúðkaupsveislunni. Sem sagt, ákveðið fyrst hvar brúðkaupið á að vera, hvernig þema þið óskið eftir og síðast en ekki síst veljið kjólinn. Mikilvægt er að velja brúðarblóm með tilliti til húðgerðar brúðarinnar því blóm og litir fara okkur misvel eins og fatnaður.
Ef buddan leyfir þá getur verið mjög gott að fá aðstoð fagfólks þegar kemur að því að velja blóm og skreytingar, og láta viðkomandi jafnvel sjá um allan pakkann. En ýmislegt geta brúðhjón þó gert sjálf, sem er skemmtilegt og persónulegt.
Ef þið ákveðið til dæmis að halda haustbrúðkaup er mjög smart að fara út í “móður náttúru” og tína falleg haustblóm og greinar, haustlitirnir eru jú svo yndislegir og rómantískir. Það eru ótal hugmyndir til af fallegum brúðkaupum sem henta mismunandi fjárhag og tilfinningu allra brúðhjóna.
Eftirfarandi eru nokkrar hugmyndir af skreytingum, blómum og litum sem geta leiðbeint verðandi brúðhjónum um hvernig umhverfi þau vilja hafa á þessum einstaka degi.
Tegund | Tákn |
Hvít eða kremuð blóm | |
Rósir | Ást að eilífu, leyndardómur, þögn, sakleysi |
Liljur | Hreinleiki og trygglyndi |
Túlípanar | Ástarjátning, kærleikur |
Nellikur | Hrein ást, ljúfleiki, sakleysi |
Orkideur | Ást og fegurð |
Calablóm | Stórkostleg fegurð |
Baldursbrá ( Daisy's ) | Skilyrðislaus ást og sakleysi |
Bleik blóm | |
Rósir | Þakklæti, fullkomin hamingja |
Túlípanar | Augun þín eru svo falleg, ástarjátning |
Freysliljur | Trygglyndi |
Gerberur | Kveðja |
Calablóm | Stórkostleg fegurð |
Nellikur | Ég gleymi þér aldrei |
Rauð blóm | |
Rósir | Ég elska þig |
Túlípanar | Ástarjátning |
Gerberur | Kveðja |
Nellikur | Mig verkjar í hjartað af ást |
Calablóm ( vínrauð ) | Stórkostleg fegurð |
Gul blóm | |
Rósir | Vinátta og von |
Sólblóm | Þú ert stórkostleg(ur) |
Liljur | Daður og falsleiki |
Gerberur | Kveðja |
Nellikur | Vonbrigði |
Þetta eru vinsælustu blómin í brúðkaupum, en það er um að gera að skoða í blómabúðunum og gefa ímyndunaraflinu lausan taumin. Einnig er til stórt úrval af bláum og fjólubláum blómum. Ef þið hafið áhuga á orkídeum eða calablómum þá er hægt að panta þau að utan í alls kyns stærðum og litum, en nauðsynlegt er þó að panta með nokkurra vikna fyrirvara.
Gerviblóm
Notast má við gerviblóm af öllum gerðum og stærðum í brúðkaupum, og geta þau verið mjög falleg. Þannig er hægt að kaupa eða leigja skreytingar. Ef fólk vill kaupa silkiblóm þá eru nokkrir staðir sem koma til greina, t.d. Soldís, Garðheimar, og hinar og þessar gjafaverslanir. Ekki má gleyma að fólk á skreytingarnar í áraraðir. Bergfléttur eru til dæmis mjög vinsælar í stórum veislum og hægt að skreyta á margan hátt með þeim, eins og með því að hengja þær á borðhorn, láta þær liggja á borðunum, hengja þær á dúkana o.s.fr. Einnig er mjög glæsilegt að vera með stóran vönd á matarborðinu í háum vasa.
Skreytingar á háborði
Háborð þar sem brúðhjón og nánasta fjölskylda sitja tíðkast í flestum brúðkaupsveislum, og fallegt getur verið að hengja tjull framan á það. Í tjullið má svo festa blóm, slaufur eða greinar. Ofan á borðinu þykir smekklegt að hafa einungis brúðarvöndinn, þar sem hann á að vera aðalatriðið. En einnig er hægt að skreyta háborðið með kertum og rósablöðum eða einhverju öðru látlausu skrauti, þar sem það er miður skemmtilegt að brúðhjónin sjáist ekki fyrir skreytingum á háborðinu. Með leigðum sölum fygja yfirleitt gólfsíðir dúkar sem er hægt að hengja fallegar greinar eða borða í.
Skreytingar á matarborði
Mörgum þykir tignarlegt að hafa stóran kertastjaka á matarborðinu. Slíkan stjaka má leigja ef hann fyrirfinnst ekki í eigu vina eða ættingja. Ef fólk er með síða dúka er fallegt eins og áður sagði að hengja greinar í dúkinn, á hornin eða á hliðunum. Þar geta t.d. verið sömu blóm og í brúðarvendinum. Einnig er fallegt að vera með stóran vasa með háum og miklum blómvendi. Spyrjið fjölskyldu og vini, það er aldrei að vita nema þar leynist vasi sem hentar vel. Sé brúðkaupssjóðurinn stór og digur geta brúðhjónin jafnvel gengið svo langt að láta gera fyrir sig ísskúlptúr sem eru sérstaklega fallegir og hátíðlegir.
Skreytingar í anddyri
Sé anddyri í veisluhúsnæðinu er kjörið að skreyta það. Þar gæti til dæmis verið fallegt að setja blómaboga ef vítt er til veggja, en slíka gripi er hægt að leigja. Einnig getur verið fallegt að vera með stórt silkitré eða blóm þar, sem hægt er að fá lánað, leigt eða keypt. Skreyta má svo tréð með slaufum í stíl við aðrarskreytingar.
Hátíðlegt er að dreifa rósarblöðum í veisluhúsnæðinu, hvort sem um er að ræða um gólf eða á borð. Einnig er æðislegt að hafa útikerti við innganginn.
Gestabókin
Ef fólk er handlagið er mjög skemmtilegt að föndra eigin gestabók, sem getur verið myndaalbúm í leiðinni. Farið í föndurverslanir og fáið aðstoð og hugmyndir. Ef pláss leyfir þá er smart að búa til lítið borð fyrir gestabókina með kerti og/eða blómvendi. Þá mætti jafnvel stíga skrefið til fulls og útvega sér æðislegan fjaðurpenna eða annan fallegan penna.
Skreytingar hjá gestum
Ef um hringborð er að ræða er sígilt að hafa blóm á miðju borðinu. Þau mega ekki vera svo há að gestir eigi erfitt með að tala saman og sjá hvorn annan. Ef um langborð er að ræða verður einnig að passa upp á að hafa ekki háan kertastjaka eða blómvönd. Það er sniðugt og einfalt að hafa sprittkerti á borðum í fallegum kertastjökum. Einnig getur verið smart að setja sprittkertin í lime eða epli eða hvað sem er sem fólki dettur í hug. Hægt er að strá laufblöðum eða rósarblöðum á borðin eða setja á þau greinar, glingur, ber eða fjaðrir. Það er líka hægt að verða sér út um litlar glerkúlur eða hjörtu og dreifa þeim á borðin.
Ef skipa á til sætis er sniðugt að hafa lista með nöfnum boðsgesta í stafrófsröð við innganginn í salinn. Hægt er að gera fullt af skemmtilegtum hlutum tengt servíettunni eða nafnaspjaldinu, og ef vel tekst til þarf ekki aðrar skreytingar á borðin.
Fólk í veisluhugleiðingum getur fjárfest í tímaritum sem innihalda einfaldar lausnir sem henta öllum veislum. Eitt slíkt tímarit sem er í miklu uppáhaldi hjá höfundi heitir “Bloom’s”.
Servíettubrot getur sett mikinn svip á borðhald og ein sniðug aðferð er að búa til vasa framan á servíettuna þar sem stinga má blómi. Svo má jafnvel setja mjóan vír utan um blómið sem tengt er við nafnspjaldið. Það er hægt að gera mjög falleg nafnspjöld sjálfur og einfalt dæmi er að klippa út hjarta og skrautskrifa nafnið á það. Einnig er hægt að fara í föndurverslanir og kaupa karton og láta skera út hvers kyns form ykkur að kostnaðarlausu. Servíettuhringi má einnig búa til úr öllu mögulegu, svo sem fallegum slaufum eða með því að þræða blóm á vír, svo eitthvað sé nefnt. Látið hugmyndaflugið ráða ferðinni og ef það neitar að taka á loft er alltaf hægt að kaupa skreytingatímarit sem eru uppfull af frábærum hugmyndum um skraut er búið er til úr nánast hverju sem er.