Rings

Hjónabandsprófið

hjonabandsprofidÞær sem eru efins um að hinn tilvonandi sé sá eini rétti geta nú gripið til sinna ráða. Hjónabandsprófið svokallaða sker úr um hvort parið á framtíðina fyrir sér.

Hugsuðurinn á bak við hjónabandsprófið heitir Jeffry Larson en að baki því liggja 60 ára rannsóknir hans á þessu sviði. "Margir halda því fram að ástin sigri allt en dæmin sýna að sú fullyrðing stenst einfaldlega ekki," segir hann. "Það er betra að slíta sambandinu áður en það er orðið of seint. Pör sem hyggjast ganga í hjónaband þurfa að horfa gagnrýnum augum á samband sitt og koma ákveðnum málum á hreint áður en þau binda sig fyrir lífstíð."

Larson er forstöðumaður Fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafar við Brigham Young háskólann í Utah, og segir að flest hjónabandsvandamál megi rekja aftur til áranna þegar parið var að draga sig saman. Þessi vandamál hefði mátt afhjúpa strax hefði parið farið saman í gegnum hjónabandsprófið.
Prófið inniheldur almennar fullyrðingar um hjónabandið, eins og t.d. "Það að vera í hjónabandi er þaðmikilvægasta/næstmikilvægasta í lífinu" og "Kynlíf er lykillinn að vellíðan í hjónabandinu". Sé annar hvor aðilinn mjög ósammála þessum fullyrðingum þykir líklegra að hjónabandið muni ganga illa. Ef parið hefur þar að auki ólíkar skoðanir á þessum sömu fullyrðingum minnka lífslíkur væntanlegs hjónabands til muna. Aðrar fullyrðingar beinast að fjármálum eins og "Mér þætti ekki óþægilegt þótt konan hefði hærri laun en karlinn" og "Það er kannski ekki hægt að kaupa hamingjuna fyrir peninga - en þeir hjálpa til við að höndla hana".

Ákveðin atriði ættu þar að auki að hringja viðvörunarbjöllum í kollum parsins. Þar má nefna ef annar aðilinn er ráðandi í sambandinu og ef annar hvor telur að sambandið - eða sjálfstraustið, muni batna við það að ganga í hjónaband. Vandamál gætu líka skapast ef konan eða karlinn eru í sífelldri þörf fyrir staðfestingu á því að hún/hann séu elskuð. Persónueinkenni eins og stífni og eigingirni þykja heldur ekki heppilegir eiginleikar í fari maka. 
Pör sem fá lága einkunn í prófinu geta þó glaðst yfir því að ekki er öll von úti. Hægt er að vinna í ákveðnum atriðum og því þurfa pörin einfaldlega að bretta upp ermarnar og reyna að ná betri samhljómi. Það þarf því ekki endilega að koma til sambandsslita þótt karlinn vilji ekki að konan hlaupi til tengdamömmu þegar eitthvað bjátar á í sambandinu. Frekar ætti að taka niðurstöður prófsins sem vísbendingu um að parið sé ekki tilbúið í hjónaband að svo stöddu og eigi enn eftir að kynnast örlítið betur.   

Dæmi um fullyrðingar úr hjónabandsprófinu:

1. Hjónabandið er það mikilvægasta/næstmikilvægasta í lífinu.
2. Mæður tengjast börnum sínum sterkari böndum en feður.
3. Pör þurfa ekki að eiga mörg sameiginleg áhugamál.
4. Kynlíf er lykillinn að góðu hjónabandi.
5. Það er í lagi að deila tilfinningum og áhyggjum af sambandinu með öðrum en makanum.
6. Það er kannski ekki hægt að kaupa hamingjuna fyrir peninga en þeir hjálpa til við að höndla hana.
7. Barneignir mega bíða þar til unnið hefur verið úr öðrum mikilvægum málum.
8. Ástarsambönd eru óútreiknanleg.
9. Þegar ég er í fýlu út í makann þá leiði ég hann hjá mér.
10. Tíminn læknar öll sár.
11. Mikilvægt er að hjón eigi sem flesta sameiginlega vini og að þeim líki vel hvoru við vini annars.  
12. Málamiðlanir eru af hinu góða 
13. Það er mikilvægt að hafa það gott fjárhagslega.
14. Fólk staðnar í hjónabandi.
15. Mér þætti ekki óþægilegt þótt konan hefði hærri tekjur en karlinn.

Höfundur: Heiðdís Lilja
Grein úr Nýju lífi