Rings

Heilræði ljósmyndarans

heilraediljosmyndaraEin dýrmætasta eign flestra hjóna er eflaust brúðkaupsmyndirnar. Til að ekkert fari úrskeiðis er vissara að hafa vaðið 
fyrir neðan sig og skipuleggja myndatökur í brúðkaupinu vel. Nína ljósmyndari lumar á nokkrum heilræðum sem ættu að koma brúðhjónum að góðu gagni.

Bókið myndatökuna með góðum fyrirvara.

Hittið ljósmyndarannjafnvel einu sinni fyrir brúðkaupsdaginn en slíkt er þó alls ekki nauðsynlegt.

Skoðið myndir eftir nokkra ljósmyndara áður en þið ákveðið hvern þið fáið í brúðkaupið farið ekki eingöngu eftir verðinu. Ekki hafa allir sama smekk og smekkur ljósmyndarans og brúðhjónanna þarf að fara saman. Ef um einhverjar séróskir er að ræða þarf að láta vita af því og eins ef nota á albúmið sem gestabók.

Ef börn eiga að vera með á myndinni þarf að taka það fram og fá einhvern til að koma með í stúdíóið til að gæta þeirra.

Er betra að fara í myndatöku fyrir eða eftir brúðkaupið?„Ég mæli frekar með því að fara í myndatökuna á undan brúðkaupinu, sérstaklega ef börn eru með á myndinni því þeim er yfirleitt farið að leiðast eftir að hafa verið við kirkjuathöfnina. Fari fólk í myndatökuna á milli hjónavígslu og veislu þurfa veislugestir líka að bíða á meðan og börn og eldra fólk þreytist fljótt á biðinni.“

Á fólk þá bara að blása á þá hjátrú að brúðguminn megi ekki sjá brúðina í fullum skrúða fyrr en við athöfnina?„Já þannig verður andrúmsloftið miklu afslappaðra þótt þetta sé kannski ekki eins rómantískt. Hins vegar er hægt að gera mjög skemmtilegt „móment“ úr því þegar brúðurin birtist fullklædd í stúdíóinu. Þetta er því besta lausnin nema hægt sé að bjóða til veislu aðeins seinna um daginn.“

Eru einhverjar nýjungar í brúðkaupsmyndatökum? „Nýjasti valmöguleikinn er sá að nú er hægt að fá allar brúðkaupsmyndirnar, eða hluta þeirra, á stafrænu (digital) formi. Slíkar myndir eru aðallega notaðar í veislunni ogkirkjunni en einnig er hægt að fá stúdíómyndir á stafrænu formi ef fólk kýs það. Stafrænar myndir hafa þann kost að hægt er að leika sér meira með þær.“

Hvers konar ljósmyndapakka er algengast að brúðhjón panti hjá þér„Algengast er að fólk panti myndir í stúdíói en þetta er þó afar misjafnt. Hægt er að taka myndir íveislunni, stúdíói og kirkjunni og útfæra pakkann á ýmsan hátt. Sumir láta t.d. taka stúdíó- og útimyndir en aðrir eingöngu stúdíómyndir. Um þessar mundir eru útimyndirnar mjög vinsælar en við slíkar aðstæður þarf að taka tillit til veðurs. Það má ekki vera mikil sól og heldur ekki mikið rok eða rigning.“

Hvað myndarðu helst„Í brúðkaupum má ekkert gleymast og smáatriðin þurfa að vera alveg á hreinu. Ljósmyndarinn er heimildamaður um brúðkaupið, enda skoðar fólk ljósmyndirnar miklu frekar en myndbandsupptökur. Það er mjög gaman að eiga myndir af öllum ræðumönnum og af öllu sem snertir brúðhjónin sjálf. Einnig af veisluborðinu, foreldrum og systkinum brúðhjónanna. Helst þurfa allir brúðkaupsgestir að komast á mynd. Svo er einnig gaman að eiga mynd af fjölskyldunni ekki endilega stórfjölskyldunni, þótt sumir vilji það, heldur þeirri nánustu. Ég tek t.d. yfirleitt myndir af fjölskyldunni í kirkjudyrunum ...myndatakan tekur tvær mínútur og kemur mjög flott út.

Í veislunni má einnig gera ráð fyrir myndatökum, t.d. af brúðhjónunum með fjölskyldum sínum eða vinum. Það er ákaflega gaman að eiga mynd af sér með bestu vinkonunum og vinunum og jafnvel öllum saman. Þetta þarf að skipuleggja, setja inn í veisluprógrammið og láta veislustjóra tilkynna hvenær komið sé að myndatökum.

Höfundur: Heiðdís Lilja
Grein úr Nýju lífi