Rings

Hefðir

hefdirGiftingahringurinn er tákn eilífðarinnar. Hann á sér engan endi. Upphaflega voru hringarnir fléttaðir úr grasi og þurfti að endurnýja þá reglulega. Það var sagt að hringurinn myndi vernda brúðina frá öllu illu. Það tíðkaðist að hafa hringinn á löngutöng vinstri handar, því fólk trúði því að á þeim fingri væri stór æð sem kölluð var æð ástarinnar og að hún lægi beint til hjartans. Á 16.öld sást fyrst til fólks með giftingahringinn á þumalfingri, en síðan hefur þessi hefð þróast í gegnum aldirnar. Rómverjar byrjuðu að smíða giftingahringa úr málmi. Gull hefur ávallt verið langvinsælast, þótt dýrt sé. Gullið stendur fyrir endanlegan hreinleika, fegurð og styrk.

Slörið fegurðina felur

Brúðarslörið á sér einnig langa sögu.  Hugsunin á bak við það er sú að brúðurin gat falið fegurð sína og ungleika og einnig stendur það fyrir undirgefni konunnar. Þá voru slörin úr þykkara efni sem brúðurin sá ekkert í gegnum, og brúðguminn mátti að sjálfsögðu ekki sjá hana heldur fyrr en þau voru gefin saman. Þarna kemur einnig sú hefð að faðir brúðarinnar leiði hana inn kirkjugólfið, því hún náttúlega sá ekkert vegna slörsins!

Allt frá tímum Rómverja tíðkaðist að brúðurin gifti sig í hvítu. Hvítt táknaði fögnuð. Það var ekki fyrr en á 20. öld að hvíti liturinn fór að tákna hreinleika, og þurfti brúðurin einnig að vera hrein mey. Nú hafa þau gildi hjaðnað og þótt að konur gifti sig nokkrum sinnum á lífsleiðinni er ekki óalgegnt að þær gifti sig alltaf í hvítu, og þykir slíkt ekki óviðeigandi í nútímasamfélagi.

Það er ekki svo ýkja langt síðan að ungar konur voru taldar í eigu föður síns, og tíðkast þetta enn þann dag í dag í sumum heimshornum. Framtíð ungu konunnar var alfarið í höndum föðursins, og sá hann því um að finna dóttur sinni mann. Það þótti boða mikla ógæfu ef búðguminn liti brúði sína augum fyrirbrúðkaupið. Ástæðan er einfaldlega sú að ef brúðguminn fékk að sjá brúði sína fyrirfram og þótti hún ófríð, hætti hann gjarnan við. Þaðan kemur sú hefð að brúðguminn fái ekki að sjá tilvonandi konu sína fyrr en eftir þau eru gefin saman og kemur slörið þar að góðum notum.

Brúðurin vernduð

Þegar brúðgumi hafði fest sér brúður til forna varð hann að geta verndað hana. Hann hafði hana því vinstra megin við sig vegna þess að sverð sitt bar hann í hægri hönd. Af sömu ástæðu fæddist einnig hefðin um svaramanninn sem stóð við hlið brúðgumans til að aðstoða hann ef óvinur myndi reyna að stela brúðinni eða ráðast á hana á einhvern hátt.

Fyrr á tímum tíðkaðist meðal Kristinna manna að gifta sig á sunnudegi, því hann var eini frídagurinn í vikunni. Það var ekki fyrr en löngu síðar að fólki þótti það vart við hæfi að halda brúðkaup á heilögum frídegi, og þá varð laugardagurinn fyrir valinu. Og enn þann dag í dag hefur hann haldið sér sem vinsælasti brúðkaupsdagur vikunnar. Þótt reyndar séu alltaf einhverjir sem gifta sig á öðrum dögum.

Gamalt, nýtt og blátt

Something old
something new
something borrowed
something blue
and a lucky sixpence for her shoe

Svo segir gömul vísa frá Englandi sem kveður á um að brúðurin eigi að hafa eftirfarandi hluti meðferðis sem stýra henni í gæfuríkt hjónaband.

Eitthvað gamalt: brúðurin á að vera með eitthvað gamalt á sér þegar hún gengur í það heilaga, t.d. skartgrip eða eitthvað slíkt. Það táknar áframhaldandi ást.
Eitthvað nýtt: það er fyrir jákvæðni í framtíðinni.
Eitthvað að láni: hluturinn sem maður fær að láni táknar hamingju í framtíðinni. Mikilvægt er að sú manneskja sem lánar hlutinn sé sjálf hamingjusöm.
Eitthvað blátt: stendur fyrir ást, tryggð og hógværð. Í fyrri tíð Gyðinga stóð blái liturinn fyrir hreinleika.
Fæstir vita að máltækið endar svo á þessa leið: and a lucky sixpence for her shoe: En áður fyrr tíðkaðist að brúðguminn setti sixpence pening í skóinn hjá brúði sinni. Í dag er það hins vegar oftar faðir brúðarinnar sem að setur pening í skóinn hjá henni rétt áður en þau ganga inn gólfið.

Brúðarvendir og sokkabönd

Frá ómunatíð hefur tíðkast að brúðurin beri blóm hvort sem er í hönd eða hári. En það var ekki fyrr en í lok 18. aldar aðbrúðarvöndurinn kom til sögunnar, og þá í Frakklandi. Þá valdi brúðurin gjarnan blómin í vöndinn sinn sjálf og sýndi þar með hvernig henni leið innanbrjóst með vali á blómum. Í dag eru þó blómin oftast nær einungis valin út frá fegurð og stíl.  

Það þótti mikil gæfa í gamla gamla daga að eiga pjötlu úr brúðarkjól og brúðkaupsgestir hreinlega rifu og tættu kjólinn utan af brúðinni til þess að ná slíku gersemi. Þetta þótti því ekki sérlega skemmtilegur siður og breyttist hann síðar þannig að brúðurin kastaði einhverjum hlut af sér til gestanna. Vöndurinn og sokkabandið eru meðal þeirra hluta sem að brúðurin gaf af sér. Oft á tíðum voru karlmennirnir í brúðkaupinu svo ölvaðir að þeir reyndu allt til að ná sokkabandinu af brúðinni, sem seinna varð til þess að brúðguminn tók það sjálfur af og henti til ógiftra karlmanna. Sömuleiðis þróaðist sá siður að brúðurin hennti vendinum til ógiftra kvenna. Þetta er ein af þeim hefðum sem hafa haldið sér til dagsins í dag og hafa margir gaman af. Þessum siðum fylgir hjátrú um að þeir sem að grípa hlutina gangi næst upp að altarinu og vilja margir meina að það rætist oft.

Koss sálarinnar

Hinn eini sanni koss hefur ávallt haft mikla þýðingu í Kristinni trú. Á tímum Rómverja voru samningar innsiglaðir með kossi. Sagt var að þegar brúðhjónin innsigluðu hjónaband sitt með kossi, yrði hluti af þeim eftir í sálu hvors annars.

Gifstu aðeins af ást

Höfundur: Guðbjörg Magnúsdóttir