Rings

Hár hár hár

harharharAf hverju verður hárið úfið þegar það er blásið? Í þessu sambandi skiptir hárgerðin sjálf miklu máli. Til dæmis verður gróft hár og hár sem er farið að grána frekar úfið þegar það er blásið þurrt. Ástæðan getur verið sú að hárið fær ekki nægan raka og næringu. Gott er að nota efni sem mýkja hárið sérstaklega áður en það er blásið. Á eftir er gott að setja svokölluð yfirborðsefni, eins og t.d. glansúða, til að hárið fái fallegan gljáa og hárgreiðslan haldist.

Af hverju flækist hárið? Sítt hár flækist frekar en stutt hár. E.t.v. vegna þess að sjaldnar er greitt í gegnum sítt hár en stutt. Eins er það oft farið að slitna og orðið þurrt í endana. Úði sem auðveldar að greiða úr flóka í hárinu áður en greitt er í gegnum það kemur að mjög góðum notum.

Hvernig fæst glans á hárið? Sumt hár hefur gljáa frá náttúrunnar hendi en annað ekki. Gróft hár, rautt hár og grátt hár er yfirleitt minna glansandi en annað hár. Til að fá fallegan gljáa á hárið er gott að nota sérstakan glansúða. Auk þess er gott að skola hárið upp úr köldu vatni að hárþvotti loknum.

Af hverju þynnist hárið? Oft er það ættgengt. Einnig getur verið um að ræða hormónabreytingar vegna t.d. barnsburðar. Hárlos getur myndast vegna streitu eða af vítamínskorti. Hægt er að fá sérstakan hárkúr í töfluformi til að spyrna við hárlosi.

Hversu oft á að þvo hárið? Það er breytilegt eftir hárgerð en ágætt er að miða við að það sé gert á tveggja til þriggja daga fresti. Þeir sem eru með þurrt hár ættu frekar að þvo hárið einu sinni í viku og nota góða næringu til að byggja upp hárið.Þeir sem hins vegar hafa feitt hár geta örvað hársvörðinn með því að þvo hárið of oft og auka þar með fituframleiðsluna. Hreinsisjampó kemur þar að góðum notum en það hreinsar vel fituna og önnur efni t.d. klór eftir sundið.

AF hverju verður hárið rafmagnað? Þar er veðrinu um að kenna og þá sérstaklega köldu lofti. Til að draga úr rafmagni í hári er gott að nota næringu og jafnvel efni til að halda hárinu niðri og þyngja það aðeins.

Fer illa með hárið að lita það? Í dag eru efni sem notuð eru til að lita hárið orðin afar góð og þau fara ekki illa með það. Hins vegar er ekki hollt fyrir hárið að lita það hvað eftir annað, t.d. með því að setja strípur ofan í strípur, því þá þornar hárið. Í slíkum tilfellum eru góð sjampó og næring nauðsynleg hjálparefni fyrir hárið.

Fer permanent illa með hárið? Sama á við um permanent og litun. Efnin eru ekki eins sterk og áður fyrr og skemma ekki hárið. En eins og með margt annað er millivegurinn bestur. Permanent æ ofan í æ getur ofþurrkað hárið og það verður þá strítt og jafnvel líflaust.

Af hverju helst blástur illa í hárinu? Hárið getur verið þungt og klippingin úr sér vaxin. Efni sem lyfta hárinu hjálpa til við að halda hárgreiðslunni allan daginn. Of heitur blástur getur valdið því að hárið sléttist og missir lyftingu. Því er ekki ráðlegt að nota of heitan blástur og gott er að kæla hárið vel í lokin með köldum blæstri.

Hvernig á að koma í veg fyrir að hárið fitni? Hárfitan er mjög mismunandi hjá fólki og sumir framleiða of mikið af henni. Of ör hárþvottur og blástur stuðlar að því að hárið fitnar. Ef hárið er slétt og ekkert er klippt inn í það er frekar hætta á að það fitni. Gott er að skola það úr köldu vatni og nota góð hreinsisjampó.

Hversu oft á að klippa hárið? Nægilegt er að fara á sex til sjö vikna fresti í klippingu. Ef sérstök lína er í hárinu er sjálfsagt að fara oftar til að halda því við.

Höfundur: Sigríður Inga