Rings

Hamingja já-takk

hamingjajatakkBlandaðu gömlum ágreiningsefnum aldrei inn í deilur dagsins í dag. Ræddu bara um það mál sem deilurnar snúast um og leitaðu lausna á því.

Hlustaðu á maka þinn. Slökktu á sjónvarpinu, ræddu við hann og láttu hann finna að þú hafir áhuga á honum og því sem skiptir hann máli.

Snertu maka þinn og sýndu honum hlýju. Slík blíðuhót skipta jafnvel enn meira máli en kynlíf ekki síst í hjónaböndum sem varað hafa lengi. Faðmaðu makann án nokkurra skýringa, kysstu hann og hrósaðu honum sem oftast. Það er ekki nóg með að það skapi vellíðan hjá honum, heldur rennir það styrkum stoðum undir samband ykkar.

Mundu að þið voruð elskendur áður en þið urðuð hjón. Mikilvægt er að rækta samband ykkar tveggja, engu síður en að standa sig vel í foreldrahlutverkinu. Mundu líka að húsverkin hlaupa ekkert frá ykkur. Ef þið eruð orðin þreytt og valið stendur um að vaska upp eftir matinn eða fara saman í bað þá er auðvitað ekki spurning um að velja samverustund með makanum. Uppvaskið bíður!

Segðu maka þínum a.m.k. einu sinni í viku hvað hann er þér mikils virði. Það er nauðsynlegt að segja þetta upphátt þótt þér finnist hann eiga að vita þetta. (Þótt ástarjátning geti vissulega verið fólgin í því að færa makanum blóm eða kaupa handa honum espressókaffivél þarf samt einnig að tjá ástina MEÐ ORÐUM!)

Við getum allar verið hamingjusamar. Já, þetta er alveg satt. Það skiptir ekki máli hvort við erum ungar, gamlar, ríkar,fátækar, fallegar eða ófríðar, einhleypar eða giftar. Það skiptir ekki einu sinni máli hvort við erum heilbrigðar eða veikar, frjálsar eða í fjötrum. Hamingjan stendur ekki og fellur með þessum atriðum þótt þau geti vissulega haft mikil áhrif á aðstæður okkar. Hin eina sanna hamingja kemur að innan! Hún sprettur í huga okkar sem ávallt er ungur, fallegur, frjáls og ríkur, hvernig svo sem veraldleg staða okkar er. Ekki gleyma því!
Við kíktum í nokkrar bækur, viðtöl við fræðinga á ótal sviðum, á Netið og inn í eigin hugarfylgsni og söfnuðum saman ýmsum ráðleggingum lífsreynds fólks um hvernig höndla megi hamingjuna eða styrkja hana enn frekar í sessi. Allir hafa gott af því að stikla á þessu. Jafnvel þótt við séum þokkalega hamingjusamar fyrir þá getur maður alltaf á sig blómum bætt, eins og segir í kvæðinu um hana Tótu tindilfættu. Slær einhver hendinni á móti enn meiri hamingju?

Sýndu sveigjanleika! Lífið er á sífelldri hreyfingu. Sá sem ekki aðlagast breytingum situr eftir með sárt enni.

Losaðu þig við gamla drauga! Hamingjusamt fólk lifir í nú-inu og horfir jákvæðum augum til framtíðar. Það gerir mjög lítið af því að velta sér upp úr því sem er búið og gert, rifja upp gömul særindi og kreista blóð úr sárum sem ættu að vera löngu gróin. Þú ættir að taka þér þessa einstaklinga til fyrirmyndar. Horfðu fram á veginn í stað þess að lifa í fortíðinni. 
Auðvitað getur þetta verið erfitt t.d. fyrir þá sem orðið hafa fyrir alvarlegum áföllum. Dramatísk lífsreynsla getur oft skilið eftir sig djúp spor í sálartetrinu. En okkar er valið. Það er hægt að losa sig við gamla drauga og hætta að láta atvik frá fyrri tíð spilla deginum í dag.

Drekktu mikið af vatni! Merkilegt nokk, þá sýna rannsóknir að vatnsdrykkja er ekki bara holl fyrir líkamann heldur stuðlar hún líka að andlegri vellíðan. Mælt er með 6-8 glösum á dag.
Ef þú vilt fræðast meira um áhrif fæðu á andlega líðan er frekari upplýsingar að fá á Netinu: www.foodandmood.org

Borðaðu tvær Brasilíuhnetur á hverjum degi! Í þessum hnetum er mikið magn af seleni og rannsóknir hafa sýnt að það getur létt lundina og dregið úr kvíða. Mikilvægt er þó að demba ekki í sig stórum skömmtum af vítamínum eða steinefnum nema í nánu samráði við heimilislækni.

Hlustaðu á uppáhaldstónlistina þína! Rannsókn vísindamanna við Oxfordháskóla bendir til þess að tónlist geti haft mikil áhrif á sálarástand fólks. Ef við þurfum að sinna leiðinlegum verkefnum léttist lund okkar t.d. merkjanlega ef byrjað er að spila tónlist sem okkur líkar vel. Flestir þekkja líklega hvað hressandi lög geta virkað skapbætandi þegar við stöndum í ströngu í húsverkunum. Ef þú vilt slaka á er hins vegar betra að setja eitthvað klassískt á fóninn. Klassísk tónlist lækkar líkamshitann, minnkar púlsinn og hjartsláttinn og gerir andardráttinn reglulegri.

Hlæðu meira! Menn hafa lengi vitað að það er gott að hlæja. Við hlátur slaknar á vöðvum líkamans og þannig losnar um óhollaspennu. Rannsóknir hafa einnig sýnt að hlátur hefur mjög góð áhrif á sálartetrið, róar hugann og veldur því að “gleðiefnið” endorfín flæðir um skrokkinn og lætur okkur líða vel. 
Eini vandinn er sá að við hlæjum ekki nógu oft og mikið. Á sjötta áratugnum hló fólk að meðaltali í 18 mínútur á dag en núna hlær fólk aðeins í sex mínútur á dag. Bættu úr þessu með því að horfa á gamanmyndir, verja meiri tíma í góðra vina hópi og lesa skemmtilegar bækur.

Andaðu rétt og sofðu nóg! Ef þú horfir á barn eða sofandi manneskju anda sérðu að við innöndun þenst kviðarholið út og síðan dregst það saman þegar viðkomandi andar frá sér. Það er einmitt svona sem við eigum að anda. Við eigum ekki að belgja út brjóstkassann og reyna að halda maganum inni! 
Þeir sem anda vitlaust fá ekki nægilegt súrefni og verða stressaðirog þreyttir. Slík líðan stuðlar ekki að hamingju og sálarró. Of lítill svefn hefur sömuleiðis mjög slæm áhrif á líkama og sál. Þú þarft helst að sofa í 8 klukkutíma á nóttu. Hversu oft í viku nærð þú þeim tímafjölda?

Taktu frá tíma fyrir sjálfa þig! Þótt það teljist göfugt að fórna sér fyrir aðra er erfitt að vera hamingjusamur ef maður lætur sjálfan sig alltaf sitja á hakanum. Það er ekki eigingirni heldur lífsnauðsyn að “gefa” sér tíma á hverjum degi til að gera eitthvað skemmtilegt eða bara ekki neitt. Jafnvel bara 15-30 mínútur á dag geta gert gæfumuninn.

Hreyfðu þig meira! Allir vita að nauðsynlegt er að reyna reglulega á líkamann til þess að halda honum í góðu formi. Færri vita kannski að líkamleg áreynsla hefur mjög góð áhrif á andlegalíðan fólks. Ef þú vilt láta þér líða betur og ert tilbúin að leggja eitthvað á þig til þess ættir þú að hreyfa þig í 20 mínútur í senn, flesta daga vikunnar. Drífðu þig t.d. út að ganga, farðu í sund eða í leikfimi. Með því ert þú að renna styrkari stoðum undir lífshamingju þína!

Hættu að gagnrýna sjálfa þig! Flestar konur eiga talsvert auðveldara með að telja upp ýmislegt neikvætt við sjálfar sig en að nefna einhverja kosti í eigin fari. Þessu er hægt að breyta með því að fylgjast betur með litlu púkunum á öxlunum þessum ljóta og háværa sem finnst allt ómögulegt sem þú segir og gerir og þessum litla, sæta sem finnst þú æðisleg. 
Í hvert sinn sem sá ljóti lætur í sér heyra verður þú að þagga niður í honum. Annars heldur hann áfram að brjóta þig niður. Svo verður þú að snúa þér mun oftar að þessum litla, sæta og taka mark á því sem hann segir. Hann er svo lágróma að slæmi púkinn á auðvelt með að yfirgnæfa hann. Þessu þarftu að breyta. Hættu að leyfa ljóta púkanum að brjóta þig niður og beindu frekar sjónum þínum að því jákvæða við sjálfa þig.

Farðu í nudd! Yfir 60% líkamans eru vöðvar og þeir þurfa að vera í góðu formi til þess að við höfum næga orku. Nauðsynlegt er að hugsa vel um alla þessa vöðva og losa þá við spennuna sem safnast getur saman í þeim. Þetta getur þú m.a. gert með því að fara reglulega í nudd.

Beindu huganum upp á við! Rannsóknir sýna að trúað fólk er hamingjusamara en þeir sem ekki trúa á neitt æðra manninum. Ef þú leggur rækt við trúna í brjósti þér ertu þar með líka að rækta með þér aukna hamingju. Bænin gefur fólki einnig gífurlegan styrk. Jafnvel þótt þú sért algjörlega trúlaus getur þú öðlast aukna innri ró með því að stunda hugleiðslu eða jógaæfingar. (Leiðbeiningar fyrir byrjendur er að finna í ýmsum sjálfshjálparbókum, bæði á íslensku og ensku, sem finna má á bókasöfnum og í bókabúðum.)

Borðaðu fisk og taktu lýsi! Þetta hljómar kannski undarlega sem ráð til að öðlast aukna lífshamingju en omega 3 fitusýrurnar í fiski og lýsi eru ekki bara góðar fyrir hjarta- og æðakerfið. Rannsóknir sýna að fólk sem innbyrðir mikið magn af omega 3 fitusýrum þjáist síður af þunglyndi en þeir sem fá lítið af þessu mikilvæga efni úr fæðunni.

Láttu þig dreyma! Allir þurfa að hafa eitthvað að stefna að eitthvað spennandi fram undan. Settu þér markmið og reyndu að láta sem flesta drauma þína verða að veruleika, án þess að líta á það sem alvarleg skipbrot ef sum áformin ganga ekki upp.

Höfundur: Jónína Leósdóttir
Grein úr Nýju lífi