Rings

Giftingarhringurinn

giftingarhringurinnGiftingarhringurinn er tákn eilífrar ástar og ævarandi tryggðar og hápunktur hjónavígslunnar er þegar brúðhjónin innsigla ást sína með því að setja upp hringana. Þar sem hringurinn hefur hvorki upphaf né endi er hann talinn geta verndað gegn illum áhrifum. Giftingarhringar þekktust þó ekki hér á landi fyrr en seint á 19. öld.

Flestir Íslendingar kjósa að nota trúlofunarhringa sína einnig sem giftingarhringa og bera þá gjarnan trúlofunarhringana á hægri hendi en færa þá yfir á þá vinstri þegar þeir ganga í hjónaband. Mismunandi er hver geymir hringana á meðan á athöfn stendur. Svaramaður brúðguma getur geymt þá eða sérstakur hringaberi sem ber þá að altarinu á hringapúða. Sumir prestar hafa þann sið, ef engir hringaberar eru, að láta hringana liggja á opinni Biblíunni þar til þeir eru settir upp.

Gömlu, góðu, klassísku gullhringarnir halda alltaf vinsældum sínum en að sögn gullsmiða hér í borg sveiflast breidd hringanna mikið eftir efnahagsástandinu í landinu. Á krepputímunum hér á árum áður var algengast að hringar væru 3 mm breiðir en á hagsældarskeiðinu fyrir tveimur árum var breiddin komin upp í 6-7 mm. Nú í ár, þegar teikn um samdrátt í efnahagsmálum eru á lofti, eru flestir giftingarhringar komnir niður í 4,5 mm! Þess má geta að samkvæmt hjátrúnni er hjónabandið ástríkt ef giftingarhringar eru víðir en ástlítið séu hringarnir of þröngir.

Höfundur: Heiðdís Lilja
Grein úr Nýju lífi