Rings

Galdurinn við gott hjónaband

galdurinnHvað einkennir gott hjónaband? Er það hjónaband þar sem hjónum verður aldrei sundurorða? Eða er fullkomið hjónaband að vera saman öllum stundum dagsins og sofa í eins náttfötum?

Samkvæmt sálfræðingunum Álfheiði Steinþórsdóttur og Guðfinnu Eydal í nýútkominni bók þeirra Sálfræði einkalífsins (2001) og Sálfræðibókinni (1993) eru nokkrir þættir sem öðrum fremur einkenna gott hjónaband:

Vinátta. Vinátta er eitt af því mikilvægasta fyrir varanlegt samband. Vinátta maka grundvallast á því að trúnaður ríki á milli þeirra og þeir treysti hvor öðrum algjörlega. Því krefst slík vinátta einlægni, umhyggju, samkenndar og næmis á þarfir og skoðanir hins. Eigi hjón að geta orðið góðir félagar virðist einnig mikilvægt að þau hafi líkar lífsskoðanir og líka afstöðu til stjórnmála, barnauppeldis og til fólks. Oft verða samskipti á milli hjóna auðveldari ef þau hafa tiltölulega líkan bakgrunn og líka menntun. Það kemur í veg fyrir misskilning og minnkar hættuna á að annað þeirra hafi mikla vanmetakennd í sambandinu.

Næmi og nærgætni. Eitt af því sem er mikilvægt fyrir gott og traust samband er að hjón séu næm hvort á annars þarfir og líðan. Slíkt næmi kemur fram í því að finna til samúðar eða samkenndar þegar eitthvað bjátar á hjá makanum og að geta sett sig í spor hans og skilið hvað hann er að hugsa og hvernig honum líður. Þetta eykur líkurnar á því að hægt sé að fyrirgefa, sýna þolinmæði, ræða málin og leysa úr deilum.

Traust. Vissan um að makinn vilji manni vel, vilji ekki misnota mann, svíkja eða yfirgefa er forsenda þess að hjón geti átt ánægjulega sambúð. Makinn verður að finna að staðfesta sé í sambandinu, þekkja tilfinningar hins og fá að vita ef þær breytast. Hann verður einnig að geta treyst því að mega sýna sínar veiku hliðar án þess að mæta skilningsleysi eða lítilsvirðingu.

Virðing. Gagnkvæm virðing byggir á því að hjón skilji og viðurkenni rétt hvort annars á eigin persónuleika, sérkennum, tilfinningum og skoðunum en reyni ekki að móta makann að eigin þörfum og hugmyndum.

Jafnræði og sanngirni. Hlutverkaskiptingin á heimilinu getur valdið mikilli togstreitu ef bæði hjón eru útivinnandi eins og algengast er. Það er afar mikilvægt að fólk deili heimilisstörfunum jafnt strax við upphaf sambúðar eða komi sér saman um hlutverkaskiptingu sem bæði geta sætt sig við.

Kynlíf. Kynlíf gerir sambandið nánara og dýpra. Löngun til kynlífs byggist á líkamlegu aðdráttarafli og tilfinningum til annarar manneskju og forsenda þess að fólk geti notið kynlífs er andleg og líkamleg vellíðan. Flestum hjónum finnst kynlífið batna með árunum því að fólk verður afslappaðra, óheftara og ófeimnara við að prófa nýjar leiðir. 

Aðrir mikilvægir þættir sem einkenna gott samband:

Að hafa verið í tilhugalífinu um nokkurn tíma áður en sambúðin hófst.

 val á lífsförunaut byggist á vel ígrundaðri ákvörðun.

 parið hafi svipaða afstöðu til sambandsins og stefni að því að það vari lengi.

 bæði séu tilfinningalega „skilin“ við uppvaxtarfjölskyldu sína og búin að skilgreina hvernig þau vilja að sambandi við fjölskyldurnar verði háttað.

 parið geti myndað náin tengsl án þess að það sé á kostnað sjálfstæðis hvors um sig.

 hvort um sig trúi því að hitt vilji sér vel og að sú trú haggist ekki þótt deilur og ósætti kunni að koma upp.

 hvort um sig líti í eigin barm þegar vandi kemur upp og telji það vera á sína ábyrgð, engu síður en hins, að leysa hann.

 hvort um sig veiti stuðning og hvatningu til að hitt fái notið sín.

 léttleiki, kímnigáfa og hlátur auðgi sambandið.

Að varðveita rómantíkina og neistann.

Höfundur: Heiðdís Lilja
Grein úr Nýju lífi