Rings

Feimnir feður

Feður eru feimnari en mæður við að fræða börnin sín um kynlíf. Þetta kom fram í rannsókn sem náði til 500 foreldra og barna á aldrinum 10-15 ára. Yfir þriðjungur feðranna viðurkenndi að hafa aldrei rætt við börnin um kynþroskaskeiðið eða nokkuð sem lyti að kynfræðslu. Pabbar geta þó huggað sig við það að meirihluti barna vill miklu fremur fræðast um þetta hjá mæðrum sínum en feðrum. 
Í rannsókninni kom fram að foreldrar virðast byrja of seint á kynfræðslu. Nær helmingur aðspurðra barna hafði verið fyrri til en foreldrarnir að brydda upp á þessu umræðuefni. Og greinilegt er að börnum finnst þægilegra að ræða þetta við mæður sínar en feður. Þrjú af hverjum fimm börnum höfðu leitað til mömmu til þess að fá upplýsingar. 
Börnin báru foreldrum sínum vel söguna. Níu af hverjum tíu sögðust hafa fengið greinargóðar upplýsingar um kynþroskaskeiðið hjá mömmu og pabba.

Höfundur: Jónína Leósdóttir
Grein úr Nýju lífi