Rings

Enga kúra takk!

engakuraSífellt fleiri Íslendingar flokkast sem of þungir eða of feitir samkvæmt alþjóðlegum líkamsþyngdarstuðli.  Lífsstíll nútímafólks einkennist af hraða og frama í námi og starfi.  Samkeppni um að komast vel áfram gerir það að verkum að fólk vinnur lengi og hefur minni tíma og orku aflögu.  Við leitum því í auðveldar leiðir sem spara tíma eins og t.d. að kaupa tilbúinn mat og látum jafnvel senda hann heim.  Markaðssetning skyndibitastaðanna gerir það að verkum að við kaupum stærri skammta en við ætlum okkur því pizza fyrirtækin bjóða aðra pizzu fría ef brauðstangir eru keyptar líka og bjóða svo ódýrt kók með o.s.frv. 

Tæknin stuðlar einnig að því að við hreyfum okkur minna. Við getum framkvæmt flest verk dagsins með símtól eða tölvu við hendina og þurfum mörg hver ekki að standa upp allan daginn.  Það er okkur þó jafn mikilvægt að hreyfa okkur og forfeðrum okkar en munurinn er að við þurfum að gera það meðvitað þar sem lífsstíll okkar felur ekki eins mikla hreyfingu í sér í dag og fyrir 50 árum. 

Þegar fólk vaknar til vitundar um það að það er orðið þyngra en það sættir sig við þá leita flestir að lausn á því vandamáli sem tekur sem allra stystan tíma og lofar miklum árangri fljótt.  
Það er því engin furða að allir þessir skyndikúrar og skyndilausnir skuli vera í boði því margir hafa áttað sig á að fólk er tilbúið að eyða ansi miklum peningum í lausn sem er auðveld og tekur stuttan tíma.  Megrunariðnaðurinn veltir því ansi stórum upphæðum á ári hverju og fer þessi iðnaður stækkandi með hverju árinu. 

Eins undarlegt og það kann að hljóma tel ég að stór þáttur í því að þjóðin er að fitna (sem og margar aðrar þjóðir) sé einmitt þessar lausnir og kúrar.  Margir þessara kúra byggja á því að viðkomandi borði mjög fáar hitaeiningar í tiltekinn tíma og vissulega léttist fólk þegar það fer eftir slíku en vandinn er hins vegar sá að það þyngist fljótt aftur þegar það hættir á kúrnum.  Það sem gerist þegar við skerum niður hitaeininga fjöldann þá aðlagar líkaminn sig þeim aðstæðum með því að hægja á grunnefnaskiptunum.  Hann túlkar þetta sem svo að hungursneið sé komin og reynir að halda í alla þá orku sem hann fær og nýta hana vel.  Þegar fólk hættir svo á kúrnum og fer aftur að borða eins og það er vant þá er brennslan orðin hægari og fólk þyngist aftur mjög fljótt og verður jafnvel aðeins þyngra en það var áður en það hóf kúrinn.  Það verður svo hvatning til að fara aftur á kúr til að ná þyngdinni niður og svo endurtekur sagan sig aftur og aftur.  Þetta er það sem er átt við þegar talað er um jó-jó áhrif megrunarkúra.  
  
Myndin sýnir tvær leiðir til að léttast, aðra köllum við skynsamlegu leiðina en hin táknar alla megrunarkúra sama hvaða nafni þeir nefnast.  Hver punktur táknar eitt 8 vikna tímabil. Í upphafi þegar of þung manneskja stendur frammi fyrir því að ætla að létta sig þá er miklu meira freistandi að velja kúra leiðina því þá getum við losnað við u.þ.b. 10 kíló á 8 vikum og náð markmiðinu mun fljótar en ef við veljum skynsamlegu leiðina.  Flestir velja því kúraleiðina og á því er megrunariðnaðurinn að græða milljarða.  Við þurfum að skoða málið aðeins lengra fram í tímann og gera þannig breytingar ámataræði okkar og lífsstíl að við getum viðhaldið þeim til lengri tíma.  Það að bæta við reglulegri hreyfingu eins og göngutúr, sundferð eða leikfimitíma 3 x í viku í klukkustund í senn og breyta mataræðinu lítillega eins og að borða reglulega á 2-4 klst fresti yfir daginn (auka þannig grunnefnaskiptahraðann) og borða minni skammta í einu er vænlegra til langtíma árangurs en að gera stórfelldar breytingar í stuttan tíma.  
Hafðu einnig í huga að þrátt fyrir að auðveld lausn fynnist á þyngdarstjórnun eru það ekki einungis kílóin sem skipta máli varðandi heilsuna.  Við þurfum öll á reglulegri hreyfingu að halda sama hversu létt eða þung við erum.  Regluleg hreyfing minnkar líkur á ótímabærum dauða, ýmsum sjúkdómum s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, slitgigt og nokkrum gerðum krabbameina og eykur einnig heilsutengd lífsgæði fólks með því að minnka kvíða og þunglyndi.
Eftir hverju ertu að bíða?  Stattu upp og byrjaðu að hreyfa þig!

Höfundur: Unnur Pálsdóttir æfingastjóri hjá Hreyfigreiningu
Unnur er einnig með námskeiðin "í kjólinn fyrir jólin"

http://www.hreyfigreining.is/