Rings

Brúðkaupsferð

brudkaupsferdMörg brúðhjón fara í ferðalag til að slappa af og njóta hveitibrauðsdagana eftir brúðkaupið. Ferðaskrifstofur keppast um að bjóða fólki upp á spennandi ferðir út um allan heim og er misjafnt hvert leiðin liggur. Til að brúðkaupsferðin heppnist sem best þarf að huga að nokkrum atriðum áður en lagt er af stað. 
 
Sólin…
 
Ef þú ert á leið til staðar þar sem sólin skín skært og sjórinn er heitur, og jafnvel til annarrar heimsálfu, er góður undirbúningur nauðsynlegur til að þið fáið sem mest út úr ferðinni.
 
Ef þú flýgur úr kuldanum á Íslandi í steikjandi hita þarf líkaminn að aðlagast aðstæðum og ónæmiskerfið að ná jafnvægi á ný. Taktu því rólega í einn eða tvo daga á meðan líkaminn er að jafna sig og ná fyrri krafti. Það verður nógur tími eftir til að skoða sig um og gefa sig á vald ævintýranna.

Sólarvörn með háum sólarstuðli er bráðnauðsynleg með í farangurinn og ekki síður húðmjólk til að nota eftir sólböð. Þó að þú farir ekki í sólbað hefur húðmjólkin kælandi og róandi áhrif á húðina og gott er að nota hana á kvöldin.

Nokkrum vikum fyrir ferðalagið skaltu spyrja lækninn þinn hvort þú ættir að láta bólusetja þig gegn ákveðnum sjúkdómum. Í sumum löndum í Afríku og Asíu eru sjúkdómar sem þekkjast vart hér nokkuð algengir og illa undirbúinn ferðalangur getur auðveldlega smitast af þeim. Hér er um að ræða sjúkdóma eins og til dæmis heilahimnubólgu, gulu, lömunarveiki og lifrarbólgu. Hægt er að fá mótefni gegn þessum sjúkdómum og fleirum til. Þú ættir einnig að athuga hvort þú ættir að fá þér töflur gegn malaríu. Þessar ráðstafanir eru nokkuð kostnaðarsamar en eins og sagt er: „Maður tryggir ekki eftir á,” og það er betra að vera við öllu búin.

Lítið ferðaapótek er nauðsynlegt fyrir ferðina. Þar ættu að vera verkjatöflur sem þú þekkir vel, meðal við niðurgangi eða uppköstum, smyrsl sem dregur úr bólgu og kláða ef þú færð flugnabit, krem fyrir sólbruna, plástur og sótthreinsivökvi. Þetta tekur ekki mikið pláss og hver veit nema þú eða maki þinn þurfi á einhverju af þessu að halda. 
 
…og snjórinn
 
Margir hyggja á ferðalög þar sem er enn meiri snjór en hér heima og hægt er að vera á skíðum allan liðlangan daginn. Þó að manni finnist slíkt veðurfar minna eilítið á veðrið hér á klakanum er réttur undirbúningur líka nauðsynlegur.

Nokkrum vikum áður en ferðin hefst er mælt með að þú farir í sánabað. Til hvers? Til að styrkja ónæmiskerfi líkamans enn betur. Hitinn í sánabaðinu kemur blóðinu til að renna hraðar og styrkir blóðrásina. Líkaminn venst því hitabreytingunum fyrr, ekki síst ef sánabaðið er utandyra.

Komdu þér í gott form áður en þú heldur af stað. Það þýðir lítið að fara beint frá skrifborðinu upp í fagrar skíðabrekkur og halda að þú komist klakklaust niður. Til að forðast meiðsli ættir þú að fara reglulega í líkamsrækt áður en þú stígur á skíðin, synda eða hlaupa og gera nokkrar armbeygjur á hverjum degi. Í sumum líkamsræktarstöðvum er boðið upp á sértíma fyrir þá sem stunda skíði og er tilvalið að athuga hvort þeir henti þér. 

Hitaðu þig vel upp í nokkrar mínútur áður en þú spennir á þig skíðin og heldur af stað. Hlauptu á staðnum, stígðu fast niður fótunum og beygðu þig í hnjánum nokkrum sinnum til að liðka þig aðeins.

Skíðasólgleraugu er nauðsynleg í farangurinn. Glerið í þeim ætti að vera dökkt og má ekki hleypa sólinni í gegnum sig. Breið bönd á gleraugunum eru betri en mjó því þau þreyta þig ekki eins mikið.

Ef þú ert fótköld getur þú sett hitasóla í skíðaskóna og auðvitað áttu að vera í góðum flíssokkum eða gömlu góðu ullarsokkunum frá ömmu til að halda hita á tánum.

Húðin þolir misvel kulda og þess vegna er gott að nota sérstök kuldakrem til að bera á sig, sérstaklega á andlitið. Hægt er að fá vatnsheld kuldakrem í ýmsum merkjum eins og til dæmis Elizabeth Arden, Helena Rubeinstein og Clinique. Slík krem á að þurrka af þegar komið er inn í hita.

Sólin er líka hættuleg fyrir þá sem eru í snjó. Notaðu sólarkrem til að brenna ekki.

Eitt að lokum: Ekki hafa skartgripi á þér þegar þú ert á skíðum eða úti í miklum kulda. Málmur leiðir kulda og þér getur orðin enn kaldara ef þú ert með stóra eyrnalokka, hálskeðjur eða hringa.

Höfundur: Sigríður Inga
Grein úr Nýju lífi