Brúðarvöndur
Brúðarvöndurinn er ómissandi þáttur í brúðkaupinu. Við val á blómum í hann skiptir máli hvernig snið brúðarkjólsins er, en að auki er tekið mið af hæð, hári og litarhafti brúðarinnar.
Brúðarvöndurinn á sér langa sögu og á rætur sínar að rekja til Grikkja. Hlutverk hans var að verja brúðina gegn öllu illu og vera henni sem nokkurs konar skjöldur. Vöndurinn átti einnig að tákna frjósemi og hamingju.
Æskilegt er að sá sem útbýr brúðarvöndinn, hitti tilvonandi brúður og fái greinargóða lýsingu á brúðarkjólnum til þess að geta áttað sig á heildarsvip brúðkaupsins. Viðkomandi þarf einnig að vita hvaða blóm og litir eru í uppáhaldi hjá brúðhjónunum. Sumar brúðir kjósa helst ljósa liti í vöndinn sem passa vel við kjólinn, aðrar vilja fá sterka liti sem mynda andstæðu við hann. Hægt er að fá kúlu- eða dropalaga vendi og allt þar á milli.
Munið eftir að panta barmblóm fyrir brúðgumann og svaramennina auk annarra blómaskreytinga svo að allt sé í samræmi og myndi fallegan heildarsvip.
Algengt verð á brúðarvöndum er um 8.000-11.000 kr. en þá er einnig hægt að fá frá 4.000 – 15.000 kr. Allt eftir óskum hvers og eins.