Rings

Brúðarkjóllinn

Sumar konur velja draumakjólinn löngu áður en þær velja draumaprinsinn. Aðrar þykjast ekki hafa neinn áhuga á svoleiðis pjatti en laumast svo á brúðarkjólaleigurnar í skjóli myrkurs.

Einhverju þarf verðandi brúður a.m.k. að klæðast og flestir brúðarkjólar eru hvítir þótt það sé alls ekki náttúrulögmál. Áður fyrr giftu brúðir sig ekki í hvítu nema þær væru að gifta sig í fyrsta skipti því hvíti liturinn var tákn um sakleysi og hreinleika eða m.ö.o. að brúðirnar væru „óspjallaðar“. Nú til dags eru brúðarkjólar í öllum regnbogans litum, enda fer ekki öllum konum vel að vera í hvítu og er því sjálfsagt að velja þann lit sem hentar útliti hverrar og einnar.

Samkvæmt hjátrúnni ætti brúður að klæðast einhverju gömlu, einhverju nýju, einhverju að láni og einhverju bláu. Hún ætti sömuleiðis aldrei að sauma brúðarkjólinn sjálf því óhöppin í hjónabandinu verða jafnmörg og sporin sem brúðurin saumar sjálf í kjólinn. Brúðguminn má ekki sjá brúðina í fullum skrúða fyrr en til vígslunnar er komið því annað boðar ógæfu. Hann má heldur ekki gefa verðandi brúði sinni brúðarskó annaðhvort notar hún gamla skó eða kaupir þá sjálf.

Brúðarkjóllinn sjálfur 
Margar konur panta brúðarkjólinn með allt að árs fyrirvara en yfirleitt er þó nóg úrval á brúðarkjólaleigunum, hvort sem hinar verðandi brúðir skjótast þangað daginn fyrir brúðkaup eða velja draumakjólinn daginn eftir fyrsta stefnumótið. Einnig er hægt að láta sérsauma brúðarkjóla. Verð á sérsaumuðum brúðarkjólum er frá 50 þús. og uppúr. Og leiga á brúðakjólum er frá 18 þús - 38 þús. Mælt er með því að konur máti brúðarkjólinn fyrir giftingardaginn með slöri, skóm og höfuðskrauti.

Snið-ugt!

 

Konunglega sniðið – er með hárri mittislínu, upp við brjóst, sem er yfirleitt undirstrikuð með saumfari. Hentar t.d. konum með perulaga vöxt og konum sem ekki eru með þvengmjótt mitti. 

A-sniðið – er einfalt snið sem víkkar út að neðan. Frábært fyrir konur með breiðar mjaðmir og undirstrikar mjótt mitti.

Dálkakjóllinn – er eins og nafnið gefur til kynna, beinn og nútímalegur í sniði. Þetta er gott snið fyrir nánast hverja sem er og kjóllinn er sérstaklega heppilegur fyrir ófrískar brúðir.

Ballerínukjóllinn – er ekta ævintýrakjóll með þröngum toppi og mjög víðu pilsi. Fer flestum konum vel en getur þó verið of fyrirferðarmikill ef brúðurin er lágvaxin.

Prinsessukjóllinn – er með aðskornum bol og víkkar örlítið út að neðan. Saumar eru lóðréttir og enginn saumur við mittislínu. Gott snið fyrir konur með perulaga vöxt. 

Hlýralausi kjóllinn – vekur athygli á öxlunum. Snið sem fer flestum konum vel en er sérstaklega flott á íturvöxnum konum með breiðar axlir og brjóst í stærra lagi. 

Tvískiptur kjóll – góður fyrir brúðir sem passa ekki í hefðbundnar stærðir og snið, t.d. ef brjóstastærð þeirra er ekki í „réttu“ hlutfalli við neðri hluta líkamans. Hægt er að fá toppa með spöngum undir brjóstum sem lyfta þeim upp og láta mittið virðast mjórra. 

Skásniðinn kjóll – er frekar aðsniðinn og beinn. Brúðarslóði fer vel með þessu sniði, vilji brúðir vera svo flottar á því. Hentar hávöxnum og grönnum konum einna best.

 

Höfundur: Heiðdís Lilja
Grein úr nýju lífi