Rings

A-vítamín

avitaminUtan úr heimi berast þær fréttir að verið sé að gera ýmsar rannsóknir á a-vítamíni sem ber hið latneska heiti retinol. Þetta vítamín hefur verið svolítið í skugganum fyrir B-, C- og E-vítamíni, en nú virðist eins og það sé að breytast. 
Þær vísindarannsóknir sem verið er að gera á A-vítamíni snúast m.a. um hugsanlega notkun þess til að bæta sjón aldraðra og styrkja ónæmiskerfið, einnig sem lið í baráttunni við lungnaþembu og sumar tegundir af krabbameini. Það er líka verið að prófa að gefa ófrískum alnæmissjúklingum í þriðja heiminum A-vítamín, til að kanna hvort það dragi úr ungbarnadauða. Retinol hefur lengi verið notað til að bjarga sjón vannærðra barna þar sem hungursneyð ríkir. Hjúkrunarfólk sem hefur haft umsjón með þessum börnum, hefur tekið eftir því að þau sem fengu vítamínið deyja síður úr mislingum ogniðurgangspestum en önnur. Þetta hefur leitt til enn frekari rannsókna á eiginleika efnisins. 

Það er þó ekki þar með sagt að við ættum að taka vítamínið inn í stórum skammti, því það er stórhættulegt. Vesturlandabúar vinna yfirleitt nóg af því úr venjulegri fæðu, lifur, fiskur og mjólkurafurðir svo eitthvað sé nefnt. Grænmetisætur fá A-vítamín úr baunum, grænu grænmeti, appelsínum, hrísgrjónum ofl. Það er algengt í dag að retinol sé notað útvortis, t.d. í hrukkukrem, á unglingabólur og í krem fyrir sóríasis sjúklinga.

Höfundur: Guðbjörg Magnúsdóttir